Erlent

Hæsti­réttur heimilar af­hendingu skatt­skýrslna Trumps

Eiður Þór Árnason skrifar
Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, er eini forsetinn sem hefur ekki birt skattskýrslur sínar opinberlega.
Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, er eini forsetinn sem hefur ekki birt skattskýrslur sínar opinberlega. AP/Carolyn Kaster

Hæsti­réttur Banda­ríkjanna greiddi í dag leið sak­sóknara í New York að skatt­skýrslum og öðrum fjár­hags­gögnum Donalds Trump, fyrr­verandi Banda­ríkja­for­seta. Undir­réttur hafði áður úr­skurðað í októ­ber að fyrrum endur­skoð­endur Trumps þyrftu að verða við beiðni á­kæru­dóm­stóls og af­henda gögnin.

Lögmenn Trumps hafa lengi reynt að snúa við þeirri niðurstöðu en hæstiréttur hafnaði í dag kröfu fyrrverandi forsetans um að réttaráhrifum áðurnefnds úrskurðar yrði frestað. Niðurstaðan kemur eftir að hæstiréttur hafnaði þeim lagarökum í júlí að ekki ætti að láta gögnin af hendi þar sem sitjandi forseti nyti ekki einungis friðhelgi fyrir ákæru heldur einnig hvers kyns rannsókn.

Hluti af sakamálarannsókn

Óskað var eftir gögnunum í tengslum við sakamálarannsókn Cyrus Vance, umdæmissaksóknara á Manhattan, á fjármálum Trumps. Beinist rannsóknin meðal annars að peningagreiðslum sem Michael Cohen, fyrrverandi lögmaður Trumps, greiddi konum fyrir að þaga um samband sitt við kaupsýslumanninn. 

Saksóknarinn kallaði upphaflega eftir því í ágúst 2019 að bókhaldsfyrirtækið Mazars USA, sem hafði lengi starfað fyrir Trump, myndi afhenda embættinu skattskýrslur þáverandi forseta fyrir árin 2011 til 2018. 

Trump er eini Bandaríkjaforsetinn sem hefur neitað að birta skattskýrslur sínar opinberlega en talið er að þær geymi áður óséðar upplýsingar um auðæfi hans og starfsemi Trump Organization. Mikil leynd hefur ríkt yfir fjármálum Trumps en vísbendingar hafa komið fram um að hann hafi skotið háum fjárhæðum undan skatti í gegnum tíðina.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Hæstiréttur úrskurðaði gegn forsetanum

Hæstiréttur Bandaríkjanna hafnaði í dag að forseti njóti algerrar friðhelgi fyrir sakamálarannsókn. Úrskurðurinn opnar möguleikann á að saksóknarar í New York fái skattskýrslur Donalds Trump forseta afhentar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×