Innlent

Neyðarstigi aflétt í fyrsta sinn í fjóra mánuði

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna í gær.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna í gær. Vísir/vilhelm

Ríkislögreglustjóri, í samráði við sóttvarnalækni, hefur ákveðið að færa almannavarnastig úr neyðarstigi niður á hættustig vegna kórónuveirufaraldursins. Neyðarstigi var lýst yfir 4. október 2020 þegar þriðja bylgja faraldursins hófst og smitum tók að fjölga verulega. Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavörnum.

Breytingin hefur ekki áhrif á þær sóttvarnaráðstafanir sem nú eru í gildi. Aflétting neyðarstigs hefur því ekki í för með sér breytingar gagnvart almenningi.

Í tilkynningu segir að ferli sem hófst vegna neyðarstigs sé því lokið en sóttvarnalæknir og stýrihópur um verkefni sem snýr að faraldrinum fylgist eftir sem áður með þróun faraldursins og taki ákvarðanir miðað við framvindu hans.

Frá því að neyðarstigi var fyrst lýst yfir 6. mars 2020 hafa 6.033 manns smitast af kórónuveirunni verið staðfest, yfir 46.005 farið í sóttkví og 488.851 sýni verið tekin innanlands og á landamærum. Tuttugu og níu hafa látist vegna Covid-19.

Fáir hafa greinst með veiruna síðustu daga og vikur. Í gær greindust þó fjórir með veiruna, nokkuð fleiri en dagana á undan, en voru allir í sóttkví.


Tengdar fréttir

Fjórir greindust innanlands í gær

Fjórir greindust með kórónuveiruna innanlands í gær. Ekki hafa svo margir greinst með veiruna innanlands á einum sólarhring síðan þann 26. janúar.

Enginn með virkt smit á Landspítalanum og gleðin allsráðandi

Þeim árangri hefur verið náð í baráttunni gegn kórónuveirunni innanlands að nú liggur enginn inni á Landspítalanum með virkt COVID-19 smit. Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar spítalans, segir að í hugum heilbrigðisstarfsfólksins sé þetta afar sérstakur dagur og skyldi engan undra því starfsfólk spítalans hefur borið hitann og þungann af þeirri erfiðisvinnu sem felst í því að hlúa að þeim sem verst hafa orðið fyrir barðinu á veirunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×