Sport

John Kavanagh: Gunnar Nelson hefur bætt á sig massa og vill berjast í mars

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gunnar Nelson í vigtuninni í Kaupmannahöfn í september 2019.
Gunnar Nelson í vigtuninni í Kaupmannahöfn í september 2019. Getty/Jeff Bottari

Það styttist í næsta bardaga hjá Gunnari Nelson ef marka má það sem John Kavanagh var að tala um á blaðamannafundi á vegum UFC.

Íslenski bardagamaðurinn Gunnar Nelson mun vonandi mæta aftur inn í búrið í vor ef marka má orð þjálfara hans. MMA Junkie segir frá.

Það er liðið miklu meira en ár síðan að Gunnar Nelson keppti síðast en hann tapaði þá fyrir Gilbert Burns í september 2019.

Þetta var fimmta tap Gunnars á UFC ferlinum en hann hefur unnið átta bardaga. Hann er orðinn 32 ára gamall og hefur verið að keppa á vegum UFC frá því í júlí 2012.

John Kavanagh, þjálfari Gunnars, sagði blaðamönnum frá stöðunni á íslenska bardagamanninum á fjölmiðlafundi fyrir UFC 257 baradagakvöldið.

„Hann er á fullu að leita sér að bardaga. Ég var að tala við Halli (Harald Nelson) í dag,“ sagði John Kavanagh en Haraldur Nelson er bæði faðir og umboðsmaður Gunnars.

„Látið þá endilega vita sem eru að leita sér að bardaga. Hlustiði út í heimi. Leyfið Gunnari Nelson að berjast. Æfingasalurinn hans opnaði í síðustu viku. Ísland lokaði öllum æfingasölum sínum og hann gat því ekki æft blandaðar bardagaíþróttir. Hann var samt að lyfta, hefur bætt á sig vöðvamassa og er orðinn stór og mikill,“ sagði John Kavanagh.

„Við erum að horfa á bardagakvöldið með (Johnny) Walker 27. mars. Það væri frábært fyrir Gunnar að fá að berjast þetta kvöld,“ sagði Kavanagh.

Gunnar Nelson vann fjóra fyrstu UFC-bardaga sína en hefur síðan tapað oftar (fimm töp) en hann hefur unnið (fjórir sigrar).

MMAFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.