Handbolti

Guðjón Valur: Elliði er miklu eldri í höfðinu en vegabréfið segir til um

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Elliði Snær Viðarsson vakti athygli fyrir góða frammistöðu gegn Portúgal á sunnudaginn.
Elliði Snær Viðarsson vakti athygli fyrir góða frammistöðu gegn Portúgal á sunnudaginn. vísir/Hulda Margrét

Guðjón Valur Sigurðsson fer fögrum orðum um Elliða Snæ Viðarsson sem leikur undir hans stjórn hjá Gummersbach í þýsku B-deildinni.

Guðjón Valur tók við Gummersbach í sumar eftir að hafa lagt skóna á hilluna í vor eftir langan og glæsilegan feril. Hann sótti liðsstyrk til Íslands og fékk Elliða til Þýskalands. Guðjón Valur kveðst afar ánægður með Eyjamanninn Elliða.

„Þetta er alvöru drengur og miklu eldri í höfðinu en vegabréfið segir til um,“ sagði Guðjón Valur í samtali við nafna sinn Guðmundsson í Sportpakkanum.

Klippa: Sportpakkinn - Guðjón Valur um Elliða

„Þetta er frábær karakter. Hann gefur sig allan í allt og hann ásamt einum til tveimur öðrum hafa breytt æfingakúltúrnum hjá okkur. Hann er gríðarlega duglegur og leggur mikið á sig. Ég hélt reyndar að ég væri að kaupa gallaða vöru þegar hann meiddist tvisvar á fyrsta mánuðinum og hann var það smeykur að hann vildi ekki segja mér frá því,“ sagði Guðjón Valur léttur.

Gamli landsliðsfyrirliðinn segir að Elliði hafi ekki þurft neinn tíma til að aðlagast hlutunum í nýju landi.

„Hann kemur úr góðum foreldrahúsum og frábæru félagi þar sem góð uppbygging er í gangi. Maður sér að hann hefur haft góða þjálfara og kemur úr liði sem hefur unnið eftir einhverri áætlun. Hann var klár í slaginn þegar hann mætti. Hann þurfti engan aðlögunartíma, þannig lagað séð. Hann er búinn að vera algjör happafengur fyrir okkur,“ sagði Guðjón Valur.

Hann segir að Elliði geti orðið fastamaður í íslenska landsliðinu á næstu árum. „Það sem hjálpar ungum strákum í dag er að geta spilað vörn og hann vann sig inn í liðið hjá ÍBV. Svo þurfti að hann stela nokkrum mínútum af Kára [Kristjáni Kristjánssyni] sem hann gerði. Hann kom svo til okkar og er að spila allavega fjörtíu til fimmtíu mínútur í hverjum einasta leik. Það sem er líka mjög sterkt við hann er að hann er svo mikill liðsmaður og félagsmaður.“

Elliði er í sextán manna hópi Íslands sem mætir Portúgal í fyrsta leik sínum á HM í Egyptalandi í dag. Leikurinn hefst klukkan 19:30.

Nánar verður rætt við Guðjón Val í Sportpakkanum á Stöð 2 í kvöld.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×