Handbolti

Fá góðan liðsstyrk fyrir slaginn við Ísland í kvöld og horfa til verðlaunasætis

Sindri Sverrisson skrifar
Alfredo Quintana, markvörður Portúgals, segir liðið ætla sér langt á HM. Bjarki Már Elísson og félagar í íslenska landsliðinu eru fyrsta hindrunin.
Alfredo Quintana, markvörður Portúgals, segir liðið ætla sér langt á HM. Bjarki Már Elísson og félagar í íslenska landsliðinu eru fyrsta hindrunin. vísir/Hulda Margrét

Portúgalar hafa styrkst fyrir átökin við Íslendinga í kvöld á HM í Egyptalandi því þeir munu geta teflt fram hinum reynslumikla Gilberto Duarte, fyrrverandi leikmanni Barcelona.

Duarte missti af leikjunum við Ísland í undankeppni EM vegna meiðsla en Paulo Pereira staðfesti á blaðamannafundi í gær að skyttan yrði með í kvöld. „Gilberto er loksins kominn aftur og við verðum með hann í hópnum. Hann bætir miklu við okkar leik, sérstaklega í vörninni,“ sagði Pereira.

Í viðtali við portúgalska blaðið Record fyrir mótið sagði Pereira að Portúgal gæti alveg stefnt að verðlaunum á HM, eftir að hafa lent í 6. sæti á EM í fyrra. Fram að því höfðu Portúgalar þó ekki verið á stórmóti í 14 ár.

Gilberto Duarte var leikmaður Barcelona áður en hann fór til Montpellier í Frakklandi 2019.Getty/Marius Becker

„Það er enginn svakalegur munur á 10. og 1. sæti. Bilið er alltaf að minnka á milli liðanna svo þetta verður mjög jafnt. Markmið geta hjálpað manni að komast lengra í stað þess að dragast aftur úr. Við höfum metnað til að komast á toppinn,“ sagði Pereira.

Miklar væntingar hjá Portúgölum

Leikmenn hans, fyrirliðinn Rui Silva, markvörðurinn Alfredo Quintana og línumaðurinn Luís Frade, tóku í sama streng.

„Með sigri á Íslandi er liðið á góðri leið með að skrá nýjan kafla í sögubækur sínar í Egyptalandi. Þetta er snúinn leikur en hópurinn er fullur af sjálfstrausti og metnaði,“ sagði Silva og bætti við að 32-23 tapið gegn Ísland á Ásvöllum á sunnudag breytti engu þar um.

„Við ætlum okkur að ná eins langt og hægt er, rétt eins og á EM í fyrra,“ sagði Quintana sem var Íslendingum erfiður þegar Portúgal vann 26-24 sigur í síðustu viku.

Frade, sem er liðsfélagi Arons Pálmarssonar hjá Barcelona, segir leikinn við Ísland algjöran lykilleik: „Væntingarnar eru miklar fyrir HM og við munum taka einn leik fyrir í einu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×