Lífið

Hætt við tökur á Algjörum Sveppa 4

Freyr Bjarnason skrifar
Sveppi glaður í bragði á frumsýningu þriðju myndarinnar fyrir tveimur árum. Anna Svava Knútsdóttir átti að leika í nýju myndinni.
Sveppi glaður í bragði á frumsýningu þriðju myndarinnar fyrir tveimur árum. Anna Svava Knútsdóttir átti að leika í nýju myndinni. fréttablaðið/valli
„Þetta er pínu leiðinlegt. Við vitum að það eru margir krakkar að bíða eftir þessu og maður hafði heyrt út undan sér að Kvikmyndasjóður ætti að einblína svolítið á barnamyndir,“ segir Sverrir Þór Sverrisson, Sveppi.

Hætt hefur verið við framleiðslu á kvikmyndinni Algjör Sveppi og Gói bjarga málunum vegna þess að hún fékk ekki styrk frá Kvikmyndasjóði Íslands. Ákvörðunin kom Sveppa og félögum í opna skjöldu því síðustu þrjár myndir í seríunni hafa allar fengi styrki frá sjóðnum. Þær hafa einnig notið mikilla vinsælda hjá ungu kynslóðinni og seldust um þrjátíu þúsund miðar á síðustu mynd.

Fréttablaðið greindi frá því fyrir mánuði að undirbúningur fjórðu myndarinnar væri í fullum gangi, tökur ættu að hefjast í lok maí og frumsýning væri fyrirhuguð í september. Leikkonan Anna Svava Knútsdóttir hafði einnig ákveðið að leika í myndinni en núna verður ekkert af tökunum. „Maður lærir vonandi af þessu að fara ekki af stað fyrr en svarið er komið,“ segir Sveppi og á við svarið frá Kvikmyndasjóði.

Skipulagning Sveppa-myndanna, í leikstjórn Braga Hinrikssonar, hefur verið í föstum skorðum undanfarin ár og þess vegna hefur stefnan verið sett á að gera aðra tilraun á næsta ári. „Við viljum taka upp í maí og júní og eiga möguleika á að frumsýna þegar skólaárið er að byrja í september. Við erum líka með suma leikara sem eru í leikhúsum og þess vegna hefur verið ágætt að gera þetta þegar þau eru að klárast.“

Aðspurður segist Sveppi ekki vita nákvæmlega hvað sótt var um mikinn styrk. „Við höfum alltaf fengið eitthvað smá, alla vega nóg til þess að fara af stað. Þetta er alltaf svolítið dýrt og við viljum vera með fleiri tæknibrellur en í myndinni á undan.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.