Innlent

Hamskipti Vesturports best í Boston

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Hamskipti var valin besta gestasýningin á Elliot Norton verðlaununum.
Hamskipti var valin besta gestasýningin á Elliot Norton verðlaununum. Mynd/Vísir

Leikhópurinn Vesturport vann til Elliot Norton verðlaunanna í Boston á mánudagskvöldið.  Voru þau tilnefnd í þremur flokkum fyrir leiksýninguna Hamskipti en tvenn verðlaun féllu þeim í skaut.

Uppsetning hópsins á Hamskiptum var valin besta gestasýningin af leikhúsgagnrýnendum og Gísli Örn Garðarsson var einn þriggja leikara sem tilnefndir voru sem besti leikari í aðalhlutverki. Þá fékk Börkur Jónsson verðlaun fyrir bestu sviðsmynd, en ljósahönnun Björns Helgasonar og hljóðhönnun Nick Mannings voru hluti af sviðsmyndinni. Börkur Jónsson er einn fremsti leikmyndahönnuður landsins, en eins og Vísir hefur greint frá hlaut hann nýlega Reumert-verðlaun fyrir bestu sviðsmynd á árlegri leiklistarhátíð Dana.



Óvæntur heiður

„Það kom okkur fyrst og fremst á óvart að vera tilnefnd. Þessi verðlaun eru búin að vera mjög virt innan leikhúsbransans í 48 ár svo þetta er bara virkilega ánægjulegt“, segir Gísli Örn, sem er í skýjunum yfir verðlaununum. „Boston er algjör leiklistarborg og margar virkilega flottar sýningar sem fara þarna í gegn. Við vorum til dæmis að keppa á móti leiksýningunni Warhorse sem breska þjóðleikhúsið setti upp. Það er gífurlegur heiður að vinna svona stóran flokk.“

Hvorki Gísli né aðrir meðlimir Vesturports gátu verið viðstödd verðlaunaafhendinguna á mánudaginn. „Nei, því miður gátum við ekki farið til Boston og tekið við þessu. Ætli þeir sendi stytturnar ekki bara í pósti eða við pikkum þær upp næst þegar við erum á ferðinni“, segir Gísli, sem telur líklegt að leikhópurinn setji upp aðra sýningu í Boston á næstunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×