Erlent

Hættan liðin hjá?

Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir skrifar

Svissneska lyfjafyrirtækið Roche, framleiðandi inflúensulyfsins Tamiflu, hefur dregið úr framleiðslu á lyfinu þar sem framboð er orðið meira en eftirspurn. Lyfið er það sem helst hefur verið talið gagnast gegn mögulega mannskæðu afbrigði fuglaflensunnar, H5NI. Þá er lyfið einnig notað við hefðbundnum inflúensufaröldrum.

Yfirmenn fyrirtækisins sögðust á fimmtudag geta framleitt 400 milljón skammta árlega, en einungis 215 milljón skammtar hefðu verið pantaðir af ríkisstjórnum. "Þó við hættum framleiðslu í dag, ættum við nóg til að sinna öllum pöntunum í ár og næsta vetur með afgangi." sagði William Burns, forstjóri lyfjadeildar Roche.

Roche mun því draga úr framleiðslu til samræmis við eftirspurn, en þó geyma varaforða af hráefni til framleiðslunnar, í því tilfelli að til faraldurs kæmi.

Fleiri en áttatíu lönd, ásamt Alþjóða heilbrigðisstofnuninni (WHO) hafa undanfarin þrjú ár byrgt sig upp af lyfinu til að búa sig undir að H5N1 afbrigði fuglaflensunnar, sem hingað til hefur aðeins verið áhyggjuefni fyrir fiðurfénað, stökkbreytist og byrji að smitast á milli manna. Til að bregðast við þessu hóf Roche samstarf við aðra framleiðendur og í lok síðasta árs hafði framleiðslan aukist fimmtánfalt frá því sem var árið 2004.

Löndin geyma mismiklar birgðir, til eru lyf fyrir um 5% Grikkja, 25% Bandaríkjamanna og Frakkar hyggjast geyma skammta fyrir helming landsmanna. Þá hafa fjölmörg fyrirtæki tryggt sér nóg til að meðhöndla starfsmenn sína.

Frá árinu 2003 hafa 291 smitast af H5N1 afbrigði fuglaflensunnar, þar af hafa 172 látist. Á sama tímabili hafa um fjórar milljónir manna látist úr malaríu. 

Hlutabréf í Roche lækkuðu lítillega við fréttirnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×