Innlent

Guðjón Arnar fær mótframboð í formanninn

Guðni Halldórsson
Guðni Halldórsson

Guðni Halldórsson 35 ára viðskiptalögfræðingur hefur ákveðið að gefa kost á sér til formennsku í Frjálslynda flokknum á landsþingi flokksins sem haldið verður í Stykkihsólmi dagana 13.-14. mars nk. Hann hefur einnig ákveðið að bjóða sig fram í efsta sætið í prófkjöri Frjálslynda flokksins í Norðvesturkjördæmi sem fram fer vikuna 2.-8. mars nk.

„Ljóst er að miklir umbrotatímar eru í íslensku samfélagi. Sjaldan eða aldrei hefur verið mikilvægara en að íslenska þjóðin standi saman í þeim erfiðleikum sem öllum eru ljósir. Til þess þarf að veljast nýtt fólk til forystu í íslenskum stjórnmálum," segir Guðni í tilkynningu.

„Ég vil beita mér fyrir því að koma Frjálslynda flokknum í fremstu röð í íslenskum stjórnmálum. Til þess þarf ég stuðning og styrka hönd félagsmanna á landsfundinum og þátttöku kjósenda í því prófkjöri sem framundan er. Átök innan þingflokks Frjálslynda flokksins og flokksins sjálfs á undanförnum árum, hafa ekki orðið til þess að auka við fylgi hans né trúverðugleika. Ég tel að sátt þurfi að nást um nýjan formann sem hefur ekki tekið þátt í innra starfi flokksins og átökum á undanförnum árum.

Ég legg áherslu á að skapa fjölskyldum og einstaklingum sanngjarnt samfélag með lægri sköttum og jafnri stöðu þeirra innan bótakerfisins, ég legg til að lækkaðir verði tekjuskattar á einstaklinga og fyrirtæki um helming, hafnar verði viðræður við helstu viðskiptalönd Íslands um upptöku nýs gjaldmiðils þjóðarinnar auk þess sem ég tel að skoða beri inngöngu Íslands í NAFTA. Þá hef ég það að stefnumáli fyrir komandi kosningar að flokkurinn beiti sér fyrir því að afskrifa allar skuldir hér á landi um a.m.k. 25% óháð uppruna þeirra og það eigi við jafnt um einstaklinga og fyrirtæki.

Ég hef ákveðið að eyða engum peningum í prófkjörsframboð mitt og hvet aðra frambjóðendur til hins sama."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×