Innlent

Maðurinn sem fannst meðvitundarlaus er vaknaður

Rúmlega sextugur karlmaður, sem fannst meðvitundarlaus á miðri götu í Breiðholti í gærkvöldi, er á batavegi. Hann er vaknaður og kominn úr öndunarvél. Ekki er vitað hvað kom fyrir manninn en lögreglan vonast til að geta yfirheyrt hann í dag.

Það voru vegfarendur sem komu að manninum á föstudagskvöldið þar sem hann lá í blóði sínu með alvarlega ákverka. Maðurinn var þá orðinn blár og var í hjartastoppi. Fólkið sem kom að hóf strax endurlífgun.

Maðurinn fannst í Hraunbergi í Breiðholti í Reykjavík. Lögreglan hefur ekki getað svarað hvort ekið hafi verið á hann, ráðist á hann eða hann hlotið áverkana á annan hátt.

Bremsuför fundust á vettvangi en þó er ekki vitað hvort að þau hafi verið eftir bíl sem þurfti að nauðhemla þegar ökumaðurinn sá manninn liggjandi á götunni eða hvort einhver hafi ekið á manninn og stungið af. Lögreglan útilokar ekki heldur að maðurinn hafi hlotið áverkana á annan hátt.

Lögreglan hefur lítið viljað gefa upp um rannsókn málsins. Hún hefur þó einhverjar vísbendingar sem hún hefur verið að kanna. Lögreglan vonast til að geta yfirheyrt manninn í dag þar sem hann er vaknaður og að hann geti varpað ljósi á atburðarrásina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×