Erlent

Skjaldbökur lokuðu braut á John F. Kennedy flugvellinum

Einni af flugbrautum á John F. Kennedy flugvellinum í New York hefur verið lokað í tvígang þessa vikuna vegna þess að fjöldi af skjaldbökum átti leið yfir brautina.

Seinni lokunin í gærmorgun stóð yfir í hátt á annan tíma. Á meðan reyndu starfsmenn flugvallarins eins og þeir gátu til að fá skjaldbökurnar til að hraða för sinni yfir flugbrautina.

Fjallað er um málið í blaðinu New York Post. Þar segir að um árlegan atburð sé að ræða en skjaldbökurnar koma á land úr Jamacia flóanum sem er við flugvöllinn.

Starfsmenn flugvallarins vilja ekki gera mikið úr þessu máli og segja seinkanir á flugi til og frá vellinum vegna þess að skjaldbökur eru á einni flugbrautinni hafi verið óverulegar.

Talskona flugvallarins segir hinsvegar nauðsynlegt að loka flugbrautinni því það sé hvorki gott fyrir dekkin á flugvélum né skjaldbökurnar ef flugvélar neyðast til að aka yfir þær.

Skjaldbökurnar koma á land til að verpa eggjum sínum og einhverra hluta vegna telja þær að sandblettur handan við flugbraut 4L sé ákjósanlegasti staðurinn til þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×