Erlent

Klámframleiðsla stöðvuð vegna HIV-smits

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Frá tökustað klámmyndar.
Frá tökustað klámmyndar. mynd/getty
Öll klámframleiðsla í San Fernando-dal Kaliforníufylkis hefur verið stöðvuð tímabundið vegna HIV-smits hjá ónefndri klámleikkonu. Verið er að kanna hvort mótleikarar hennar hafi smitast, en talið er að konan hafi smitast af veirunni utan vinnu.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ótta gætir meðal klámleikara í dalnum vegna kynsjúkdóma, en í fyrra smituðust á annan tug leikara af sárasótt eftir að leikari sem kallar sig Mr. Marcus hélt því leyndu að hann væri smitaður. Hann var dæmdur í 30 daga fangelsi vegna málsins. Þá smituðust fjórir leikarar af HIV-veirunni árið 2004 og þá var framleiðslu á klámmyndum í dalnum einnig hætt.

San Fernando-dalurinn er nefndur höfuðstaður klámframleiðslu í Bandaríkjunum, en umdeilt þótti í fyrra þegar klámleikarar voru skyldaðir að nota smokka samkvæmt lögum. Lögin voru sett í kjölfar rannsóknar á kynsjúkdómasmitum meðal klámleikara, en heilbrigðisyfirvöld í fylkinu greindu frá 2.396 tilfellum af klamydíu, 1.389 af lekanda og fimm af sárasótt meðal þeirra frá árinu 2004.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×