Enski boltinn

Benitez kemur Mascherano til varnar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rafael Benitez reynir að róa Javier Mascherano niður.
Rafael Benitez reynir að róa Javier Mascherano niður. Nordic Photos / Getty Images
Rafael Benitez, stjóri Liverpool, sagði að Javier Mascherano hafi verið beittur óréttlæti þegar hann var rekinn af velli í leiknum gegn Manchester United í dag.

„Það kom Mascherano á óvart að fá seinna gula spjaldið því hann hélt að hann hafði ekki sagt neitt rangt,“ sagði Benitez. „Ryan Babel heyrði það sem fór á milli hans og dómarans og það eina sem Mascherano gerði var að spyrja af hverju Fernando Torres fékk gult spjald.“

Torres hafði fengið gult eftir að brotið hafði verið á honum og Liverpool dæmd aukaspyrna. Torres mótmælti því að fá ekki meira úr krafsinu og í kjölfarið gaf Steve Bennett dómari honum gult. Það var þá sem Mascherano hljóp upp að dómaranum.

Mascherano missti stjórn á skapinu í kjölfarið og varð Benitez að róa hann niður. „Hann brást við eins og hann gerði vegna þess að þetta kom honum á óvart - ég reyndi að segja honum að róa sig. Hins vegar hefði hann aldrei átt að hlaupa upp að dómaranum.“

„Eftir rauða spjaldið var leikurinn gjörbreyttur,“ sagði Benitez en staðan þá var 1-0 og fyrri hálfleik að ljúka. United bætti við tveimur mörkum í seinni hálfleik og vann því 3-0.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×