Sport

4 milljóna kr. sekt fyrir Puma föt

Arsenal miðjumanninum Robert Pires í ensku knattspyrnunni varð aldeilis á í messunni í október sl. sem hann þurfti að gjalda fyrir í gær. Pires þurfti í gær að punga út 50.000 Evrum, sem nemur rúmlega fjórum milljónum króna, fyrir það eitt að vera í röngum klæðnaði í sjónvarpsviðtali í Frakklandi. Pires mætti í viðtal í hlutverki landsliðsmanns á ríkissjónvarpsstöðinni TF1 10. október sl. klæddur fötum merktum íþróttavörumerkinu Puma. Það fór mjög fyrir brjóstið á mönnum hjá Adidas sem er opinber styrktaraðili franska landsliðsins og varð úr að franska knattspyrnusambandið kallaði Pires inn á teppi þann 15. nóvember sl. þar sem hann þurfti að svara fyrir þetta "skelfilega" athæfi. Samkomulag varð um að Pires greiddi fyrrnefnda upphæð sem sérfræðingar voru fengnir til að reikna út að væri um það bil sú fjárhæð sem Adidas tapaði á því að leikmaðurinn klæddist ekki bol frá fyrirtækinu í téðu sjónvarpsviðtali. Þá er m.a. tekið í reikninginn mínútulengd viðtalsins og hvers virði sá tími sé í auglýsingaverði. Peningurinn fer þó ekki í vasa Adidas heldur látinn renna til góðgerðarmála. Já, það getur verið erfitt að vera frægur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×