Innlent

Vel yfir 90% hópuppsagna hjá fyrirtækjum í ferðaþjónustu

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Vinnumálastofnun hafa aldrei áður borist svo margar tilkynningar um hópuppsagnir og í dag og í gær.
Vinnumálastofnun hafa aldrei áður borist svo margar tilkynningar um hópuppsagnir og í dag og í gær. Vísir/Hanna

Ríflega fjögur þúsund hafa misst vinnuna í 51 hópuppsögn sem Vinnumálastofnun hefur verið tilkynnt um í dag og í gær. Yfir 90% þessara hópuppsagna ná til starfsfólks fyrirtækja í ferðaþjónustu.

Um hádegið í gær höfðu 265 misst vinnuna í átta hópuppsögnum sem tilkynntar voru til Vinnumálastofnunar. Síðdegis í gær voru þær orðnar fimmtán og náðu til hátt í átta hundruð starfsmanna. Aldrei höfðu hópuppsagnir verið jafn margar á einum degi. Í hádeginu í dag voru hópuppsagnir orðnar 32 og náðu til 3.500 einstaklinga, þar af ríflega tvö þúsund frá Icelandair. Enn hefur þeim fjölgað síðan þá.

„Það hafa 51 fyrirtæki hafa tilkynnt hópuppsagnir og það eru 4200 rúmlega einstaklingar sem þá hafa misst vinnuna,“ segir Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar. „Þetta er nánast allt í ferðaþjónustu, langt yfir 90%,“ segir Unnur.

Íslandshótel segja upp 246

Íslandshótel eru meðal þeirra fyrirtækja sem gripið hafa til hópuppsagna. „Við erum í alveg sömu sporum og aðrir í þessu, við höfum þurft að loka 10 hótelum af 17 þannig að við þurftum því miður að ganga í uppsagnir núna um mánaðamótin bara út af þessum lokunum og þessu tekjuhruni,“ segir Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela.

Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela.Vísir/Arnar Halldórsson

Langflest önnur fyrirtæki í hótel- og gistiþjónustu hafa einnig gripið til sambærilegra aðgerða.

„Þetta voru 246 sem að við sögðum upp núna af tæplega 600 manns sem eru í vinnu hjá okkur. Við erum ennþá að halda í rúmlega 300 manns,“ segir Davíð. Þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hafi kynnt fyrr í vikunni hafi skipt sköpum. 

„Það hefði verið mjög erfitt að moka sig út úr þessum uppsagnagreiðslum án þess að fá þessa ríkisaðstoð.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×