Sport

Emil á leið til Tottenham

Efnilegasti leikmaður Landsbankadeildarinnar á síðasta tímabili, Emil Hallfreðsson, er á leið til enska stórliðsins Tottenham Hotspur. Samkomulag náðist á milli FH og Tottenham í gær um kaupverð á Emli og því á Emil sjálfur aðeins eftir að semja við félagið en hann á ekki von á að það verði mikið vandamál. "Það liggja fyrir drög að samningi sem ég er sáttur við og því má mikið gerast ef ég sem ekki við liðið á næstu dögum," sagði Emil við Fréttablaðið í gær en hann mun gera tveggja og hálfs árs samning við félagið með möguleika á eins árs framlengingu ef vel gengur. FH-ingar vildu ekki gefa upp hvað þeir fengu mikið fyrir Emil en orðuðu það þannig að þeir myndu fá pening fyrir hann kæmist hann í liðið og stæði sig vel sem þeir hafa fulla trú á að hann geri. Emil verður annar Íslendingurinn sem gengur í raðir Tottenham en Guðni Bergsson lék með félaginu á sínum tíma. Emil, sem hefur haldið með Liverpool frá því í barnæsku, var að átta sig á hlutunum í gær en hann var að vonum kátur enda langþráður draumur að rætast. "Þetta er það sem mig hefur dreymt um frá því ég var krakki og það er ótrúlegt að draumurinn sé loksins að rætast. Mig hefur alltaf langað til þess að spila í Englandi enda er það mekka fótboltans. Ég neita því ekki að það er frekar skrítið að þetta sé að gerast og ég veit að þetta er tækifæri sem ekki allir fá og því er ég staðráðinn í að nýta það vel," sagði Emil Hallfreðsson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×