Innlent

Jarðir falli í verði vegna smits

Dæmi eru um að jarðaeigendur óttist að jarðir þeirra kunni að falla í verði, ef staðfest er að hræ af militsbrandssýktum dýrum hafi verið urðuð þar. Þá er það nokkuð samdóma álit kunnugra í þessum viðskiptum að framvegis verði að taka sérstaklega fram við sölu á bújörðum ef hræ af miltisbrandssýktum skepnum hafa verið urðuð á jörðinni. Annars megi líkja því við leynda galla að selja jörð, þar sem vitað er að svona háttar til, án þess að geta þess sérstaklega. Nú er vitað um hátt í níutíu jarðir, einkum á Suður- og Vesturlandi, þar sem hræ af sýktum skepnum hafa verið urðuð. Þar af hefur yfirdýralækni verið tilkynnt um hátt í þrjátíu urðunarstaði eftir að miltisbrandsmálið kom upp á Vatnsleysuströnd í síðustu viku. Magnús Leópoldsson fasteignasali, sem hefur áratuga reynslu af viðskiptum með bújarðir, segist ekki hafa skoðað þessa hlið málsins sérstaklega en ef líta megi á þetta sem galla á jörðum þá hafi allir gallar áhrif til verðlækkunar, og þessir væntanlega eins og aðrir. Það hafi til dæmis áhrif á jarðaverð ef þær eru á svæðum þar sem meiri líkur eru á náttúruhamförum en á öðrum svæðum. Miltisbrandsmálið sé hins vegar svo nýtt að erfitt sé að meta áhrifin af því strax. Fréttastofunni er kunnugt um afar mismunandi sjónarmið í þesu máli. Sumir hafi jafnvel álasað nágrönnum sínum fyrir að hafa tilkynnt um miltisbrandsdys í landi þeirra, af ótta við að næsta jörð geti fallið í verði, aðrir telja heppilegast að upplýsa og kortleggja dysjunarstaðina sem fyrst og best, og enn aðrir telja hyggilegast að þegja yfir vitneskju um slíkt í eigin landi og sjá hverju fram vindur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×