Innlent

Silfraður fiðringur í útvegsmönnum

Talið er að 1950 árgangurinn af norsk-íslensku síldinni hafi verið um 20 milljón tonn og er það stærsti árgangur sem fundist hefur til þessa. Samkvæmt mælingum norsku fiskifræðinganna er nú fundinn árgangur sem er álíka stór eða enn meiri að vexti. Því stærri sem árgangurinn er, því meira beitarsvæði þarf hann og ef spár um hlýnun sjávar austur af landinu ganga eftir er líklegt að þessi síld komi upp að Austurlandi og gangi norður fyrir landið. Freysteinn Bjarnason, framkvæmdastjóri útgerðarinnar hjá Síldarvinnslunni, sagði í samtali við Fréttablaðið að íslenskir útvegsmenn fylgdust grannt með fréttum af þessum stóra árgangi. „Gangi vonir okkar eftir munu íslensk skip væntanlega fá að veiða 15,5% af þessum árgangi og stærstur hluti þess afla mun fara í vinnslu til manneldis. Ég á ekki von á að menn rjúki til og byggi vinnsluaðstöðu tvist og bast um landið en slík búbót mun klárlega treysta rekstrargrundvöll þeirrar útgerðar og vinnslu sem fyrir er. Þar að auki eru síldarmarkaðir traustir um þessar mundir og mikil eftirspurn eftir síld. Við bíðum því spenntir eftir frekari fréttum," sagði Freysteinn. Aðspurður hvort hugsanlega verði erfitt að manna vinnsluna í landi sagði Freysteinn: „Ég hef ekki áhyggjur af því vegna þess að sjálfvirknin í vinnslunni fer sífellt vaxandi." Á undanförnum áratugum hefur verið stór og köld tunga í hafinu út af Austurlandi og hafa göngur norsk-íslensku síldarinnar stöðvast við þessa tungu. Á síðustu árum hefur þetta kalda svæði minnkað og ef spár um frekari hlýnun sjávar ganga eftir mun þessi tunga enn minnka og færast norðar. Flest bendir því til að norsk-íslenska síldin muni eiga greiða leið að landinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×