Körfubolti

Lykilatriði að fá börnin á æfingar í maí: „Fundist þetta mjög erfitt“

Sindri Sverrisson skrifar
Pálmar Ragnarsson hlakkar til að hitta iðkendur sína aftur í næstu viku eftir hið óvænta hlé.
Pálmar Ragnarsson hlakkar til að hitta iðkendur sína aftur í næstu viku eftir hið óvænta hlé. MYND/STÖÐ 2 SPORT

Pálmar Ragnarsson, körfuboltaþjálfari í yngri flokkum Vals, segir mikilvægt að fá börn í innanhússíþróttum aftur inn á æfingar í maí til að klára tímabilið almennilega og hindra brottfall í sumar.

„Þvílíkt sem að við erum spennt hérna í Valsheimilinu að fara að byrja aftur,“ segir Pálmar í Sportinu í dag, en yngri flokkar mega hefja æfingar að nýju 4. maí eftir að hafa verið í fríi vegna samkomubanns af völdum kórónuveirufaraldursins. Pálmar, sem einnig hefur þjálfað börn hjá KR og Fjölni, segir mikilvægt að fá krakka aftur á æfingar fyrir sumarfríið:

„Það er algjört lykilatriði að fá þau inn núna áður en tímabilið formlega klárast, sem ætti að vera í lok maí hjá okkur. Það að ná þeim inn aftur núna og enda tímabilið almennilega, taka góðar æfingar áður en fólk fer í sumarfrí, er lykilatriði til að ná þeim inn næsta haust held ég.“

Pálmar segir ljóst að margir krakkar séu orðnir ansi óþreyjufullir að fá að mæta aftur í íþróttasalinn eftir hið óvænta hlé:

„Maður bjóst ekki við þessu. Þetta kom aftan að manni. Tveimur vikum áður sá maður aldrei fyrir að þetta væri bara að fara að enda og að engar æfingar yrðu í einhverja mánuði. Auðvitað var þetta erfitt og krökkunum hefur fundist þetta mjög erfitt. Ég er búinn að heyra sögur af mínum börnum heima hjá sér að springa gjörsamlega úr orku sem þau vantar að losna við, og er erfitt að losna við nema í íþróttasalnum. Ég er með svo ung börn, sjö ára og yngri, að þau fara ekki endilega ein út að leika sér um allt,“ segir Pálmar en viðtalið við hann má sjá hér að neðan.

Klippa: Sportið í dag - Æfingar barna að hefjast að nýju

Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×