Erlent

Viðbúnaður vegna árása ETA

Varðliðarnir tveir, sem fórust á fimmtudag, voru jarðsungnir í gær. Mynd/AP
Varðliðarnir tveir, sem fórust á fimmtudag, voru jarðsungnir í gær. Mynd/AP

Mikill viðbúnaður er á Spáni vegna hálfrar aldar afmælis ETA, aðskilnaðarhreyfingar Baska. Tvær sprengjuárásir í vikunni hafa minnt þjóðina illilega á harðsvíraða baráttu hreyfingarinnar undanfarna áratugi.

Minningarathöfn var á Mallorca í gær um tvo þjóðvarðliða sem fórust af völdum sprengjuárásar þar á fimmtudag, en 60 manns særðust af völdum annarrar sprengjuárásar á norðanverðum Spáni á miðvikudag.

Mikil leit var gerð að sex mönnum á Mallorca í gær og var vonast til að þeir hefðu ekki komist frá eyjunni. Innanríkisráðuneytið dreifði myndum af mönnunum sex og bað almenning um aðstoð við leitina.

Vitni sögðu mennina sex, sem eru ungir Baskar, hafa leigt sér íbúð í borginni Palma, en þeir hafi ekki sést eftir að árásirnar voru gerðar.

Jose Louis Rodrigues Zapatero forsætisráðherra flaug til Mallorca í gærmorgun til að taka þátt í útförinni. Jóhann Karl Spánarkonungur er síðan væntanlegur til eyjarinnar í næstu viku.

Aðskilnaðarsamtökin ETA voru stofnuð 31. júlí árið 1959 og hófu vopnaða baráttu fyrir sjálfstæði Baskalands árið 1968. Barátta þeirra hefur kostað meira en 800 manns lífið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×