Innlent

Nýtt tölvusneiðmyndatæki kostar 200 milljónir

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Ekki gert ráð fyrir kaupum á nýjum sneiðmyndatækjum fyrir næsta ár hjá Landspítala.
Ekki gert ráð fyrir kaupum á nýjum sneiðmyndatækjum fyrir næsta ár hjá Landspítala.
Jón Hilmar Friðriksson, framkvæmdastjóri á Landspítalanum, segir ástandið oft viðkvæmt þegar tæki eins og tölvusneiðmyndatæki eru staðsett á sitthvorum staðnum, það er í Fossvogi og við Hringbraut. Þau þurfa oft viðhalds, ásamt því sem alltaf er hætta á að slíkur tækjabúnaður bili. Óhagræðið er oft mikið fyrir sjúklinga og öryggi þeirra stefnt í hættu. Þá er slíkur flutningur kostnaðarsamur fyrir spítalann.

Jón Hilmar segir gróft áætlað verð á tölvusneiðmyndatæki vera í kringum 200 milljónir. Ekki hafði verið gert ráð fyrir kaupum á nýjum sneiðmyndatækjum fyrir næsta ár. Samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum hafði fyrri ríkisstjórn gert ráð fyrir 900 milljónum árlega í tækjakaup, þar af um 600 milljónum í sérstaka viðbótargreiðslu sem koma áttu árlega í þrjú ár. Þeir fjármunir eru ekki í fjárlagafrumvarpi næsta árs.

Tölvusneiðmyndatæki Landspítalans eru annars vegar frá árinu 2009 og 2010.

Spítalinn bíður nú eftir niðurstöðu stjórnvalda um tækjakaupaáætlun en fjármála- og efnahagsráðherra og heilbrigðisráðherra hafa lýst því yfir að niðurstaða nýrrar tækjakaupaáætlunar verði kynnt fyrir ríkisstjórn og fjárlaganefnd fyrir aðra umræðu fjárlaga.



Samkvæmt upplýsingum frá Heilbrigðisráðuneytinu er verið að leggja lokahönd á tækjakaupatillögu sem lögð verður fyrir stjórnvöld, þar sem tekin eru fyrir tækjakaup, búnaður og hugsanlega endurbætur á hluta húsnæðis Landspítalans. Nákvæmar fjárhæðir til þessara útgjaldaliða liggja ekki fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×