Innlent

Mótmæli töfðu umferð

Nokkrar tafir urðu á umferð þegar á þriðja tug atvinnubílstjóra mótmæltu olíugjaldi í gær. Bílstjórarnir óku á um þrjátíu kílómetra hraða um götur Reykjavíkur og hægðu þannig á umferð án þess þó að stöðva hana alveg. Bílstjórarnir byrjuðu að safnast saman á Sæmundargötu við Háskóla Íslands um klukkan tvö í gær og kom lögregla strax á staðinn að sögn Árna Friðmundssonar, varðstjóra hjá Lögreglunni í Reykjavík. Bílstjórarnir lögðu síðan stað um klukkan hálffjögur og lagði Sturla Jónsson, forsvarsmaður hópsins, áherslu á ekki yrði keyrt undir helmingi löglegs hámarkshraða auk þess sem ekki yrði farið til Mosfellsbæjar vegna framkvæmda sem gætu skapað hættu. Bílstjórarnir skiptu sér í hópa sem keyrðu mismunandi leiðir um Reykjavík að Rauðavatni þar sem allir mættust. Þaðan ók hópur bílstjóra Suðurlandsveg að Litlu kaffistofunni en annar hópur fór aftur inn í borgina. Mótmælaaðgerðum lauk undir klukkan sex. Lögregla var með viðbúnað um alla borg að sögn Árna og voru menn beðnir að mæta fyrr til vinnu en aðra föstudaga. "Við fylgjumst auðvitað vel með mótmælunum en sinnum einnig hinni venjulegu verslunarmannahelgarumferð," segir hann. Ekki kom til mikilla afskipta lögreglu af mótmælendunum en þó voru bílstjórar á Suðurlandsvegi beðnir um að víkja fyrir annarri umferð um stundarsakir. Sturla Jónsson, forsvarsmaður atvinnubílstjóranna, var sáttur við mótmælin. "Við áttum góða samvinnu við lögregluna og allt gekk vel fyrir sig," segir Sturla sem vill með aðgerðunum ná eyrum ráðamanna vegna olíugjaldsins sem komið var á þann 1. júlí. Annars segir hann verða gripið til frekari mótmælaaðgerða. Vegfarendur sem Fréttablaðið náði tali af við Rauðavatn kváðust ekki telja atvinnubílstjóra nota réttar leiðir til þess að vekja athygli á málstað sínum. Lýstu flestir óánægju með umferðartafirnar og sögðu aðgerðirnar ekki bitna á neinum nema fólkinu í landinu. Sumir þeyttu þó flautur sínar til þess að sýna bílstjórunum stuðning.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×