Innlent

Sumarbústaðamorð: Litháarnir neita allir sök

Breki Logason skrifar

Litháarnir fjórir sem ákærðir voru eftir að maður fannst látinn í sumarbústaðarhverfi í Grímsnesi í október á síðasta ári, neita allir sök. Einn mannanna er ákærður fyrir stórfellda líkamsárás sem varð manninum að bana. Hinir þrír eru ákærðir fyrir að koma hinum látna ekki til aðstoðar. Mennirnir neituðu allir sök í Héraðsdómi Suðurlands í gær en aðalmeðferð í málinu fer fram 19.mars.

Sá sem á stærstan þátt í árásinni var ákærður fyrir stórfellda líkamsárás með því að hafa slegið fórnalambið hnefahöggi í höfuðið, svo hann féll í gólfið. Þá á hann að hafa ýtt manninum af stól og síðan ítrekað sparkað og stigið á höfuð hans. Árásin varð manninum að bana.

Hinir þrír eru ákærðir fyrir að hafa ekki komið fórnalambinu undir læknishendur. Sá yngsti sem er ákærður fyrir að hafa ekkert að gert, er átján ára gamall.

Í gær var einnig tekist nokkuð á um túlk sem túlkar fyrir mennina sem vildu fá annan túlk en þann sem saksóknari vill notast við. Segja þeir þann túlk ekki hafa túlkað nógu nákvæmt fyrir sig.

Verjendur mannanna eiga að skila inn greinargerð þann 10.mars en aðalmeðferð fer fram 19.mars eins og fyrr segir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×