Lífið

Dolfallinn yfir Íslandi

Baldvin Þormóðsson skrifar
Zebra Katz er á samning hjá plötufyrirtækinu TheAudience.
Zebra Katz er á samning hjá plötufyrirtækinu TheAudience. vísir/daníel
Ojay Morgan er bandarískur tónlistarlistamaður og rappari sem gengur jafnan undir nafninu Zebra Catz en þrátt fyrir að hafa aðeins verið í tónlist í þrjú ár hefur hann náð að skapa sér stórt nafn vestanhafs og komið fram með listamönnum á borð við Azealia Banks, Lana Del Ray og Diplo.

„Ég var að vinna hjá veitingaþjónustu í New York og tónlist var alltaf bara hliðarverkefni,“ segir Morgan í viðtali við Fréttablaðið.

„Það var ekki fyrr en tískuhönnuðurinn Rick Owens notaði lag eftir mig á sýningunni sinni í París að ég ákvað að hætta í vinnunni og einbeita mér að tónlistinni,“ segir listamaðurinn en það var lagið Ima Read sem Rick Owens notaði á tískuvikunni í París og í kjölfar þess skaust Zebra Catz upp á stjörnuhimininn í rappsenunni og í dag hafa verið gerð rúmlega 120 svonefnd remix af laginu Ima Read.

„Ég reyndi að fylgjast með öllum remixunum en það var orðið erfitt eftir svona sjötíu,“ segir Morgan og hlær.

Listamaðurinn hefur aldrei komið til Íslands áður en hann kom til landsins í seinustu viku. „Sólin hefur, án djóks, ekkert sest síðan ég kom,“ segir rapparinn dolfallinn yfir sumarsólstöðunum.

Morgan mun svo sannarlega ekki sitja auðum höndum hér á landi en hann hefur strax byrjað að vinna með fatahönnuðinum Alexander Kirchner að svokölluðum Bomber-jakka sem listamaðurinn ætlar að nota í myndatöku. „Þetta verður heitasta nýja jakkalúkkið,“ segir tónlistarmaðurinn en auk þess ætlar hann að taka upp nýjasta tónlistarmyndband sitt hér en hann er þekktur fyrir einkennandi og áhrifamikil tónlistarmyndbönd.

„Ég hlakka mikið til að drekka í mig menninguna hérna, hér er ótrúlegt magn af frábærum listamönnum sem ég hlakka til að kynnast og hanga með.“

Zebra Katz mun koma fram á tónleikum á skemmtistaðnum Húrra næsta föstudagskvöld ásamt Gísla Pálma og einvala liði plötusnúða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×