Innlent

Arfavitlaus hagstjórn

"Hagstjórnin er eins arfavitlaus og hægt er að hugsa sér," segir Guðmundur Kristjánsson, forstjóri útgerðarfélagsins Brims á Akureyri. Guðmundur segir vandann vera heimatilbúinn því ríkið eigi bæði Íbúðalánasjóð sem dæli út peningum og Seðlabankann á hinum endanum. Hann telur að þessar aðferðir eigi eftir að leggja útflutningsgreinarnar í rúst. "Afleiðingarnar koma bara ekki í ljós alveg strax, en þær verða mjög alvarlegar til lengri tíma litið," segir Guðmundur. Í sama streng tekur Stefán Eyjólfsson, framkvæmdastjóri Íslandsferða. Hann segist sjá fram á versnandi hag ferðaþjónustu í kjölfar hækkunar á stýrivöxtum. "Því sterkari sem krónan er, þeim mun verri verða aðstæður okkar. Við erum trúlega í um fimmtán prósentum verri aðstöðu núna en fyrir ári síðan vegna gengisþróunarinnar," segir Stefán. Hann útskýrir að verið sé að keppa við þjónustu í öðrum löndum þar sem gengi er stöðugt. Þannig sé um að ræða ytri aðstæður í rekstrinum sem valdi verðhækkunum og minni eftirspurn. Viðar Viðarsson, framkvæmdastjóri EJS, segist ekki viss um að gengið hafi allt að segja fyrir þá sem flytja vörur inn. "Þó að gengið styrkist eða veikist þýðir það bara batnandi eða versnandi aðstæður fyrir alla sem eiga í innflutningi," segir Viðar. Hann segir áhuga sinn fremur beinast að gengisþróun þeirra gjaldmiðla sem hann og samkeppnisaðilarnir eru að versla í. Viðar segir viðskiptavini fyrirtækisins njóta hagstæðrar gengisþróunar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×