Lífið

Nýtt andlit í Stundinni okkar

Krefjandi verkefni Anna Svava Knútsdóttir telur að hlutverk sitt í Stundinni okkar verði erfitt, enda séu börn óhrædd við að gagnrýna. Fréttablaðið/Valli
Krefjandi verkefni Anna Svava Knútsdóttir telur að hlutverk sitt í Stundinni okkar verði erfitt, enda séu börn óhrædd við að gagnrýna. Fréttablaðið/Valli

„Við erum byrjuð að skrifa saman, ég og Björgvin. Hann verður áfram umsjónarmaður þáttarins og ég verð svona aukakarakter. Svo bregð ég mér í ýmis hlutverk," segir leikkonan Anna Svava Knútsdóttir, sem ráðin hefur verið annar umsjónarmanna Stundarinnar okkar næsta vetur.

Anna Svava útskrifaðist úr leiklistardeild Listaháskólans fyrir tveimur árum og hefur síðan tekið að sér hin og þessi hlutverk. Í vetur hefur hún verið hjá Leikfélagi Akureyrar þar sem hún lék meðal annars í Músagildrunni og Földu fylgi. Hún er ánægð með þetta nýja hlutverk sitt. „Auðvitað er ég kát. Ég horfði alltaf á Stundina okkar þegar ég var barn og fannst Bryndís Schram ógeðslega skemmtileg. Þegar ég horfi á þá þætti í dag veit ég hins vegar ekki alveg hvað það var sem mér fannst skemmtilegt," segir Anna Svava og hlær. Hún telur ástæðu þessa vera þá að lítið framboð hafi verið á barnaefni þegar hún var krakki. Það sé allt breytt. „Nú skipta krakkarnir bara um rás ef þeim finnst efnið ekki skemmtilegt. Þetta verður því að vera gott."

Anna Svava er ekki feimin við að viðurkenna að það sé nokkur pressa á henni vegna þessa. „Það er allt öðruvísi að framleiða efni fyrir börn en fullorðna. Við munum gera fjóra þætti til að byrja með og spyrja krakkana hvað þeim finnst. Þá getur vel verið að þau fíli mig ekki neitt og þá þurfum við að gera eitthvað allt annað. Þau segja nefnilega það sem þeim finnst, annað en fullorðna fólkið."

- hdm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.