Innlent

Biðlistum Greiningastöðvarinnar eytt á tveimur árum

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar

Eftir tvö ár verður búið að eyða biðlistum barna hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Ríkisstjórnin samþykkti í morgun að hefja aðgerðir til að tryggja styttri biðtíma eftir greiningu en hann er nú allt að þrjú ár.

Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins starfar á vegum félagsmálaráðuneytis og þjónar fötluðum börnum og ungmennum og fjölskyldum þeirra. Þar fer meðal annars fram athugun og greining barna með fatlanir og önnur frávik í taugaþroska.

Mikið álag hefur verið á Greiningarstöðinni og biðtími eftir að fá greiningu barna hefur verið allt að þrjú ár. Tvö hundruð og fimmtíu börn bíða nú eftir greiningu 69 þeirra eru á leikskólaaldri en 181 á grunnskólaaldri.

Ríkisstjórnin samþykkti í morgun tillögur Jóhönnu Sigurðardóttur félagsmálaráðherra um að hefja sérstakar aðgerðir til að vinna á biðlistunum.

Hafist verður handa strax en kostnaður við átakið er 147 milljónir. Stofnuð verða þrjú teymi með þátttöku fagmanna og verður alls ráðið í ellefu og hálft stöðugildi vegna átaksins. Gert er ráð fyrir að húsnæði verði leigt undir átaksverkefnið þar sem húsnæði Greiningarstöðvarinnar nægir ekki til að hýsa það.

Að átakinu loknu á að vera búið að eyða biðlistum og bið eftir greiningu verður þá þrír mánuðir hjá leiksskólabörnum.

Tilvísunum til Greiningarstöðvarinnar hefur fjölgað mikið á síðustu tíu árum og leggur félagsmálaráðherra áherslu á að greina börn snemma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×