Innlent

Fimm aukaferðir verði farnar á næstu tveimur vikum

MYND/GVA

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, hefur óskað eftir því við Vegagerðina og Eimskip, sem rekur Herjólf, að skipið sigli þær fimm aukaferðir sem kveðið er á um í gildandi samningum á næstu tveimur vikum. Næstu tvær vikur verði svo nýttar til þess að ná samkomulagi um 20 aukaferðir sem ríkisstjórnin hafi lofað í vor.

Elliði sagði í samtali við fréttastofu að á næstu tveimur vikum væru stórir viðburðir í Eyjum, Shell-mótið og Pæjumótið í knattspyrnu og Goslokahátíð. Því hefði verið óskað eftir því að fyrir Shellmót yrðu næturferðir farnar á morgun, miðvikudag, fimmtudag og svo aftur á sunnudag 1. júlí klukkan ellefu um kvöldið. Í kringum Goslokahátíð verði tveimur næturferðum svo bætt við, það er á fimmtudeginum 5. júlí og á sunnudeginum 8. júlí.

Elliði segir þetta gert í þeirri trú að samgönguyfirvöld noti vikurnar tvær til þess að ná samkomulagi við Eimskip um 20 aukaferðir að næturlagi í sumar. Gert var ráð fyrir 30 milljónum króna í þær ferðir samkvæmt samþykktum ríkisstjórnarinnar en ekki hafa náðst samningar milli Eimskips og Vegagerðarinnar.

Elliði segir að ef samningar náist ekki sé hætt við að ófremdarástand skapist í Eyjum flestar helgar, svo ekki sé minnst á til dæmis Þjóðhátíð þegar von sé á 7 til 8 þúsund gestum.

Róbert Marshall, aðstoðarmaður samgönguráðherra, segir ráðherra hafa átt fund með vegamálastjóra í morgun vegna málsins. Þar hafi vegamálastjóri fengið fyriræli um að fara aftur að samningaborðinu og ná niðurstöðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×