Innlent

Hyggjast leysa vanda Greiningarstöðvarinnar á tveimur árum

MYND/Frikki Þór

 

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun tillögur Jóhönnu Sigurðardóttur félagsmálaráðherra um að ráðast í átaksverkefni til þess að vinna á biðlistum hjá Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins.

Ætlunin er að leysa vandann á næstu tveimur árum eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá félagsmálaráðuneytinu og hefjast aðgerðir þegar í stað. Kostnaður við átakið er talinn 147 milljónir.

Stofnuð verða þrjú teymi með þátttöku barnalæknis, sálfræðings, félagsráðgjafa og þroskaþjálfa sem hafa aðgang að talmeinafræðingi, iðjuþjálfa, sjúrkaþjálfa og sérfræðing í einhverfugreiningu auk læknaritara.

Gert er ráð fyrir að húsnæði verði leigt undir átaksverkefnið þar sem húsnæði Greiningarstöðvarinnar nægir ekki til að hýsa það. alls verður ráðið í ellefu og hálft stöðugildi vegna þess. Verkefnishópur á vegum félagsmálaráðherra stýrir verkefninu. Átaksverkefnið er gert með hliðsjón af aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar til að styrkja stöðu barna og unglinga en hún er til fjögurra ára.

Fram kemur í tilkynningu frá félagsmálaráðuneytinu að tilvísunum til Greiningarstöðvarinnar hafi fjölgað mikið á síðustu tíu árum og og voru tilvísanir til að mynda 200 árið 2000 en tæplega 300 árið 2005. Þrátt fyrir að aukið fjármagn hafi verið veitt til málaflokksins bíða nú 250 börn og fjölskyldur þeirra eftir þjónustu stofnunarinnar og hefur biðtíminn verið allt að þremur árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×