Skoðun

Bjarnargreiði Bjarnasonar

Auður Jónsdóttir rithöfundur skrifar

Í dag er Paul Ramses meðhöndlaður sem glæpamaður fyrir það eitt að hafa sýnt einstætt hugrekki í fyrrum heimalandi sínu.

Á Íslandi dvelur konan hans ásamt ungabarni þeirra.

Fjölskyldunnar bíður ekkert nema óvissan, óvissa í skugga svartra framtíðarhorfa. Í versta falli bíður þeirra dauðadómur.

Paul á vini og kunningja á Íslandi. Hann hefur starfað fyrir ABC-barnahjálpina. Hann er hugsjónamaður sem er fengur í fyrir íslenskt þjóðfélag.

En íslenskir ráðamenn kæra sig kollótta um það. Þeir eru búnir að vísa honum út á guð og gaddinn því hann millilenti á Ítalíu á leið sinni til landsins.

Svo lengi sem sitjandi dómsmálaráðherra afsakar þennan gjörning, svo lengi sem starfsmenn Útlendingastofnunnar réttlæta hann, svo lengi sem íslenskir ráðamenn sætta sig við að stjórnkerfið sé jafnsneytt mannúð og raun ber vitni, þá verður mér óglatt af tilhugsuninni einni að vera íslenskur ríkisborgari.

Að horfa upp á þessar aðfarir fyllir mig vanmætti, viðjóði og sorg. Og það á við um fjölmarga aðra Íslendinga í dag.

Ég efast um að valdsvið viðkomandi ráðamanna sé nógu guðlegt til að þeir hafi rétt á að valda samborgurum sínum slíkri ónotakennd.

Ef sú er raunin freistar það óneitanlega að sækja um ríkisborgararétt í öðru landi en Íslandi. Bara einhverju landi þar sem mannúð þykir álíka sjálfsögð og skítsæmileg klósettaðstaða.






Skoðun

Sjá meira


×