Innlent

Blaðsíða 19 í Draumalandinu varð að Kóreskum stórtónleikum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Draumalandið eftir Andra Snæ Magnason hefur notið mikilla vinsælda undanfarinn áratug.
Draumalandið eftir Andra Snæ Magnason hefur notið mikilla vinsælda undanfarinn áratug. Vísir/Hanna
Ásgeir Trausti, Ólafur Arnalds og Gus Gus munu troða upp á öðruvísi tónleikum í Silfurbergi í Hörpu annað kvöld. Engir miðar voru til sölu en eftirtektarsamir Íslendingar gátu gert tilraun til að verða sér út um miða í miðahappdrætti.

Einhverjir fengu miða en væntanlega aðeins brotabrot af þeim sem sóttu um. Um er að ræða stórtónleika á vegum LG frá Suður-Kóreu en fyrirtækið er komið til Íslands til að kynna nýleg sjónvarpstæki sín, LG OLED TV.


Silfurberg verður undir áhrifum íslenskra norðurljósa en hann verður skreyttur í bak og fyrir með sjónvarpsskjáum frá fyrirtækinu. Markmiðið, að því er segir á heimasíðu Hörpu, er að mynda norðurljósastemningu og má reikna með miklu sjónarspili. En þar með er ekki öll sagan sögð.

Svo virðist sem hugmyndin að atburðinum hafi kviknað hjá fyrirtækinu í Suður-Kóreu eftir lestur á Draumalandinu eftir Andra Snæ Magnason, að minnsta kosti blaðsíðu nítján í þeirri vinsælu bók sem fagnar einmitt tíu ára afmæli sínu í ár. Á blaðsíðu 19 stendur:



Slokkni ljós – kvikna stjörnur

Á fallegu vetrarkvöldi

er slökkt á öllum ljósum á Íslandi á milli klukkan 21:00 og 22:00

Stjörnufræðingur lýsir himninum

í beinni útsendingu.

Allir fara út og njóta.



Þessi orð urðu kveikjan að símtali fulltrúa LG til Andra Snæs sem fundaði með fyrirtækinu í mars vegna ímyndarherferðar LG. Það sem þau vilja koma á framfæri er hið algera myrkur sem þeim tekst að fá á skjáinn.

„Svona getur ein blaðsíða í bók orðið að stórtónleikum á vegum LG í Kóreu 10 árum síðar,“ segir Andri Snær.



Heimildarmynd var gerð eftir bókinni og má sjá kynningarstiklu hennar hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×