Innlent

Ragnar orðinn alþjóðleg stjórstjarna

Una Sighvatsdóttir skrifar
Stjarna Ragnars Kjartanssonar myndlistarmanns skín æ skærar með hverrju árinu. Hann hefur síðustu ár farið með verk sín um allan heim og nú um helgina opnaði stærsta listamiðstöð Evrópu, Barbican Center í London, stóra yfirlitssýningu með fjölda verka hans frá árinu 2002 til dagsins í dag.

Breskir fjölmiðlar ausa Ragnar lofi. Blaðið Independent segir sýningu á ferli hans löngu tímabæra, Evening Standard talar um meistaraverk og Guardian segir Ragnar einn snjallasta listamann samtímans og skapi hughrif sem lifi lengi með þeim sem sér verk hans. Í allri umfjöllun kemur íslenskur uppruni Ragnars skýrt fram, en hefur þetta áhrif á íslenskt myndlistarlíf?

 

Ólöf K. Sigurðardóttir safnstjóri Listasafns Reykjavíkur segir gleðilegt að fá að sýna verk Ragnars á næsta ári og kynna þannig íslenskan listamann og alþjóðlega stjórstjörnu á sama tíma.
Hefur jákvæð áhrif á íslenskan listaheim

„Ég hugsa að velgengi listamanns hafi alltaf jákvæð áhrif á umhverfið sem hann kemur úr," segir Ólöf K. Sigurðardóttir safnstjóri Listasafns Reykjavíkur. „Og það á ekki bara við um Ragnar, ég held að margir sem gera það gott alþjóðlega hafi áhrif á kollega sína hér."

Barbican Center kynnir sýninguna þannig að ferill Ragnars sé nú hálfnaður (e. mid career) sem má teljast nokkuð gott því Ragnar er enn bráðungur. „Hann er náttúrulega bara fertugur þannig að hann á heilmikið eftir, mér finnst mid-career djúpt í árina tekið, þótt hann hafi komist langt á stuttum tíma þá held ég að hann eigi heilmikið inni."

Gaman að fá að sýna Ragnar hér á landi

Frá Barbican Center heldur Ragnar næst til Washington með verk sín. Á næsta ári heldur hann þó aftur heim og sýnir í Listasafni Reykjavíkur.

„Það er náttúrulega dálítið gaman að opna sýningu á verkum Ragnars Kjartanssonar, þá erum við bæði að kynna alþjóðlega stórstjörnu og lókal hetju. Það fer mjög vel saman," segir Ólöf.



Gefur ekki uppi hvaða verk verða til sýnis

Og í ljósi þess hve Ragnar er stórtækur í listaheiminum verður ekki hjá því komist að leggja hálft Hafnarhúsið undir sýninguna. „Við ætlum að reyna að sýna eins mikið og hægt er, en verk Ragnars eru umfangsmikil og taka mikið rými hvert og eitt svo við þurfum að sjá hvað við komum miklu fyrir," segir Ólöf.

„Ég vil ekkert gefa uppi um hvaða verk það verða nákvæmlega en við ráðgerum að hún muni opna næsta vor."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×