Innlent

Sænskur hermaður þungt haldinn eftir árás í Afganistan

Sænskur hermaður er enn þungt haldinn eftir árás á friðargæsluliða í Afganistan. Annar hermaður lést í árásinni en tveir til viðbótar, auk tveggja óbreyttra borgara, hlutu minniháttar meiðsl. Aukinn þungi hefur verið að færast í mótspyrnu gegn erlendum herjum í landinu en á sama tíma búa evrópskar sveitir sig undir að taka við hlutverki bandarísku herjanna í landinu.

Um fimmtán hundruð manns hafa látið lífið í átökum sem hafa blossað upp með auknu offorsi í Afganistan í ár. Árásin á sænsku friðargæsluliðana var dæmigerð: fjarstýrð sprengja var tendruð þegar bílalest Svíanna ók eftir vegi nálægt Mazar-i-Sharif á föstudag.

Amanuddin Khan, lögreglustjóri í Mazar-i-Sharif

"A mine was placed on the road in front of Now Bahar plastic factory. As a result of that three ISAF soldiers were injured and transferred to the hospital."

Sjö íslenskir friðargæsluliðar hafa verið kallaðir heim af svipuðum slóðum vegna ólgunnar sem þar ríkir. Önnur íslensk friðargæslusveit er í vestanverðu landinu. Friðargæslan er á vegum Atlantshafsbandalagsins, sem er með níu þúsund hermenn í Afganistan. Bandaríkjaher, sem hefur það meginhlutverk að berjast gegn talibönum og Al Kaída, er að fækka í liði sínu í Afganistan og á sama tíma er NATO að undirbúa fjölgun friðargæsluliða og að þeir láti til sín taka á ófriðarsvæðinu í sunnanverðu landinu. Hollensk yfirvöld ætla að taka þátt í þessari fjölgun en vilja skýr svör um nokkur atriði. Þau vilja að þungvopnaðar sveitir séu til taks að verja friðargæsluliðana ef á þá er ráðist og að samið verði við stjórn Karzais forseta um hvernig farið verði með stríðsfanga. Sú krafa er meðal annars í kjölfar fregna um að bandaríska leyniþjónustan hafi notað Schiphol flugvöll í Hollandi til fangaflutninga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×