Innlent

Slagur um velferð

Helgi Hjövar þingmaður Samfylkingarinnar
Helgi Hjövar þingmaður Samfylkingarinnar

Frumvarpi til fjárlaga næsta árs var í fyrradag vísað til þriðju umræðu á Alþingi. Tekjur ríkissjóðs eru áætlaðar meiri en nokkru sinni. Tekjur vegna neyslu verða gríðarlegar og í raun svo miklar að Einari Oddi Kristjánssyni, varaformanni fjárlaganefndar, ofbýður og óskar þess innilega að úr tekjum ríkissjóðs dragi og kaupmáttur rýrni í kjölfar lækkandi gengis.

Þanþol atvinnuveganna er búið og við erum allt of dugleg við að hækka kaupið, segir Einar Oddur. Í daglöngum umræðum um fjárlagafrumvarpið síðastliðinn fimmtudag var togast á um útgjöld til velferðarmála. Rétt eins og tekist væri á um framtíð velferðarkerfisins.

"Einkenni þessa fjárlagafrumvarps er annars vegar skortur á aðhaldi og hins vegar skattalækkanir til okkar hátekjufólksins í samfélaginu," sagði Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, þegar hann í upphafi atkvæðagreiðslu um fjárlagafrumvarpið gerði grein fyrir afstöðu sinni.

"Það er nú svo komið að hæstvirtur forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson hefur á einum áratug ásamt félögum sínum í Sjálfstæðisflokknum aukið skattbyrði hinna lægst launuðu í landinu um heil mánaðarlaun á ári en létt sköttum af okkur hátekjufólkinu í landinu um heil mánaðarlaun á ári," sagði Helgi enn fremur.

Tónninn um vaxandi misskiptingu í þjóðfélaginu er sem stef í málflutningi stjórnarandstöðunnar. Að mæla misskiptingu tekna Jón Bjarnason, þingmaður Vinstri grænna, sagði í umræðum um frumvarpið síðastliðinn fimmtudag að Norðurlöndin kæmu vel út úr öllum lífsgæðakönnunum. Hann minntist á svonefndan GINI-stuðul sem mælir tekjuskiptingu í þjóðfélaginu. Því nær sem hann fer núllinu, því meiri er jöfnuðurinn milli tekjuhópa. Því nær sem stuðulinn nálgast 1,0, því meiri er ójöfnuðurinn. Jón sagði að misskipting eða ójöfnuður hefði aukist gríðarlega síðustu ár. Danmörk væri enn það land innan OECD þar sem jöfnuður væri mestur. Í humátt á eftir kæmu Svíþjóð, Noregur og Finnland en öll eru þessi lönd um eða undir 0,25 á GINI-kvarðanum. "Frá árinu 1995 hefur GINI-stuðulinn fyrir Ísland hækkað úr 0,21 í 0,31. Núverandi ríkisstjórn hefur því tekist á ótrúlega skömmum tíma að stórauka misskiptinguna. Eftir síðustu skattkerfisbreytingu, sem samþykkt var á síðasta þingi, færumst við nú enn hraðar frá Norðurlandaþjóðunum," sagði Jón Bjarnason.

"Sú misskipting er farin að ógna þeirri samstöðu og þeim einhug sem lengi hefur einkennt íslenskt samfélag," sagði Helgi Hjörvar við atkvæðagreiðsluna síðastliðinn föstudag.

Klisjur og ósannindi
@Mynd -FoMed 6,5p CP:Magnús Stefánsson FRAMSÓKNARFLOKKI

Magnús Stefánsson, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar, sagði stöðu ríkissjóðs sterkari en dæmi væru um á síðari tímum. Afgangur á rekstri ríkissjóðs væri áætlaður hartnær tuttugu milljarðar króna og það væri meiri afgangur en flestar Evrópuþjóðir gætu státað af. Einnig hefði náðst ótrúlegur árangur við að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Við þessar aðstæður væri stjórnarandstaðan við sama heygarðshornið og héldi því fram að verið væri að skera niður íslenska velferðarkerfið.

"Sá málflutningur er holari nú en nokkru sinni og á sér enga stoð í raunveruleikanum. Þvert á móti er enn eitt árið verið að auka framlög til velferðarmála, til félagsmála og menntamála svo dæmi séu tekin. Það er rétt að vara þjóðina við því að taka mark á klisjukenndum og ósönnum málflutningi stjórnarandstöðunnar að þessu leyti, heldur horfa til þess sem gert hefur verið og til þess sem felst í þessu fjárlagafrumvarpi. Allt miðar það að því að bæta hag og lífsgæði þjóðarinnar. Þar erum við í fremstu röð meðal þjóða heimsins og þar ætlum við að vera áfram," sagði Magnús.

"Það dregur í sundur með þeim sem hærri hafa launin og þeim sem lægri hafa launin," sagði Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, við atkvæðagreiðsluna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×