Erlent

Gætti þess að styggja ekki Rússa

George Bush, Bandaríkjaforseti, sýndi af sér kæti og dansaði fyrir gestgjafa sína í opinberri heimsókn til Georgíu. Hann hældi þarlendum stjórnvöldum á hvert reipi en passaði sig þó á því, að reita ekki Rússa til reiði.  „Ljósgeisli lýðræðis“ var lýsing Bush á Georgíu sem fyrir einu og hálfu ári gekk í gegnum friðsamlega borgarabyltingu, rósrauðu byltinguna svokölluðu, sem varð til þess að Míkhaíl Saakashvílí var settur forseti í stað Edvards Shevardnadzes. Þessi umskipti í Georgíu voru Pútín og rússneskum stjórnvöldum ekki að skapi enda var Shevardnadze bandamaður þeirra fyrst og fremst en nýi forsetinn Saakashvílí er menntaður í Bandaríkjunum og hallar sér meira að Vesturlöndum en Rússlandi. Það þótti því táknrænt að Bush Bandaríkjaforseti héldi beint frá Moskvu og hátíðarhöldunum á Rauða torginu í gær í heimsókn til Saakashvílís í Tíblisi. Ekki virtist Bush leiðast í heimsókninni því hann tók dansspor fyrir gestgjafana á danssýningu sem honum og Lauru forsetafrú var boðið á og sagði  hann að Georgíumenn ættu sér sterkan bakhjarl í Bandaríkjunum. Hann sagði jafnframt að Bandaríkjastjórn myndi styðja inngöngu Georgíu í Atlantshafsbandalagið. Þrátt fyrir þetta var Bush varkár í orðalagi og lét fréttamenn ekki draga sig í það að gera upp á milli Georgíu og Rússlands sem nú eiga í hatrömmum deilum um framtíð tveggja rússneskra herstöðva í landinu. Georgíustjórn vill loka þeim og senda rússnesku hermennina heim en það er Rússum síst að skapi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×