Innlent

Enginn mótmælenda kærður

Enginn þeirra sem mótmæltu við Kárahnjúka í gær verða kærðir vegna málsins. Talsmaður Landsvirkjunar segir þó að frekari mótmæli af þessu tagi verði ekki liðin. Vinna stöðvaðist alveg í tvær og hálfa klukkustund og því ljóst að mótmælin kostuðu Impregilo og Landsvirkjun töluverða peninga. Engar skemmdir voru þó unnar að öðru leyti en því að sement í tveim bílum kólnaði. Hrönn Hjálmarsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar segir að fyrirtækið hafi ákveðið að kæra ekki að þessu sinni, til þess að forðast leiðindi. Hins vegar sé málið litið alvarlegum augum og fleiri mótmæli af þessum toga verði ekki liðin. Þá segir hún að ákveðið hafi verið að herða eftirlit við svæðið í kjölfar aðgerða mótmælenda í gær. Lögreglan stóð vakt á Kárahnjúkasvæðinu í allan dag. Að sögn lögreglunnar á Egilsstöðum verða lögreglubílar meira og minna á ferðinni um svæðið héðan af. Það hafi verið ákveðið í kjölfar aðgerðanna í gær. Ekki verði þó mönnuð vakt þar allan sólarhringinn því þar sé embættið bundið fjárhagsáætlunum. Ákveðið hefur verið að ríkislögreglustjóri veiti embætti lögreglunnar á Egilsstöðum aðstoð við að manna Kárahnjúkasvæðið á næstu vikum og mánuðum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×