Innlent

Ferðamenn við gosstöðvarnar yfirgefi ekki farartæki villist það af leið

Mynd/Pjetur

Fólki sem hyggst fara uppá Eyjafjallajökul til að skoða gosstöðvarnar er ráðlagt að yfirgefa aldrei farartæki sín og halda hópinn ef það villist af leið. Meiri líkur en minni eru á að fólk finnist heilt á húfi í farartækjum sínum þar sem þau veita betra skjól og auðveldara er að finna þau.

Verið er að endurmeta þörf á eftirliti með ferðafólki við gosstöðvarnar á Fimmvörðuhálsi, eftir að karl og kona, sem upphaflega fóru til að skoða gosið, urðu úti norður af Mýrdalsjökli. Sveinn Rúnarsson yfirlögregluþjónn á Hvolfsvelli segir veðurskilyrði til leitarinnar í gær og í fyrradag hafa verið erfið. Fólkið hafi verið þokkalega búið til útivistar en þó ekki með gríðarlegan búnað. „Þau voru með kuldagalla og útivistarbúnað en lítið annað í sjálfu sér," segir Sveinn.

Hann telur ómögulegt að segja til um hvort fólkið hefði lifað af hefði það haldið til í bílnum allan tímann. „Við ráðleggjum fólki hins vegar sem lendir í svona aðstæðum að halda sig við farartækin. Þau er auðveldast að finna og halda betra skjóli fyrir veðrinu."

Sveinn brýnir fyrir fólki að tilkynna um ferðir sínar ef farið er upp á jökla og afskekkt svæði þar sem símasamband er lélegt og veðurskilyrði breytileg. Einnig þurfi fólk að búa sig vel hvort sem farið er gangandi eða á ökutæki. Vera með ábreiður í farartækjunum, nóg af útivistarfatnaði, nesti og neyðarbúnað.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×