Innlent

Ákæran gegn Magnúsi stendur

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Magnús Guðmundsson
Magnús Guðmundsson
Hæstiréttur felldi í dag úr gildi úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að máli gegn Magnúsi Guðmundssyni, fyrrverandi forstjóra Kaupþings í Lúxemborg, í al-Thani málinu skuli vísað frá. Þetta kemur fram á fréttavef RÚV, en Vísir hefur einnig fengið þessar heimildir staðfestar. Ákæran gegn honum verður því tekin til efnislegrar meðferðar í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Al-Thani málið snýst um það að Magnús Guðmundsson og þrír aðrir lykilmenn í rekstri Kaupþings voru ákærðir fyrir umboðssvik og markaðsmisnotkun í tengslum vð sölu á 5% hlut í bankanum til Sheikh Mohammed bin Khalifa Al-Thani. Sérstakur saksóknari telur að um sýndarviðskipti hafi verið að ræða og al-Thani hafi aldrei greitt neitt fyrir hlutinn. Þessum gjörningi hafi verið ætlað að halda uppi hlutabréfaverði í bankanum.

Auk Magnúsar voru Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður, og Ólafur Ólafsson, stærsti eigandi bankans, ákærðir. Sakborningar kröfðust allir frávísun málsins. Við fyrirtöku í Héraðsdómi Reykjavíkur úrskurðaði dómari að þeim ákæruliðum sem lúta að Magnúsi Guðmundssyni skyldi vísað frá. Fram kom í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur að ákæran á hendur honum væri svo óskýr og vanreifuð að vísa bæri henni frá dómi.

Hæstiréttur felldi þann úrskurð úr gildi í dag og telur hann ákæruna nógu skýra til þess að sakborningar geti gripið til varna.

Uppfært klukkan 16:40

Í úrskurði Hæstaréttar er ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur um að vísa frá ákærulið á hendur Ólafi Ólafssyni einnig felld úr gildi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×