Innlent

Hlaupa til styrktar MS-félaginu

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Anna Sigríður, Christine og María hlaupa í fimm klukkustundir á dag án þess að stoppa.
Anna Sigríður, Christine og María hlaupa í fimm klukkustundir á dag án þess að stoppa.
Ofurhlaupararnir Anna Sigríður Sigurjónsdóttir og vinkonur hennar, þær Christine Bucholz og María Jóhannesdóttir, hlaupa nú norður Kjöl og suður Sprengisand til styrktar MS félaginu.

Anna hefur verið með hugmyndina í kollinum síðastliðin tvö ár, þar sem sjúkdómurinn tengist henni persónulega. Greindist systir hennar með hann fyrir átján árum. Þetta segir Sólveig M. Jónsdóttir, upplýsingafulltrúi hópsins, en hún fylgir þeim stöllum eftir á ferð þeirra. „Veðrið hefur ekki leikið við þær og því hefur ekki verið skemmtilegt að tjalda. En það hefur alls staðar verið tekið svakalega vel á móti okkur og við höfum fengið fría gistingu,“ segir hún glöð í bragði.

„Anna Sigríður vill að það náist inn fimm milljónir,“ segir Sólveig en segist ekki gera sér neina grein fyrir því hvað safnast hafi nú þegar.

„MS félagið hefur þá ósk að eyrnamerkja þennan sjóð sem safnast í að gefa fólki tækifæri til að ferðast.“

Stöllurnar hlaupa um fimm klukkustundir á dag án þess að nema staðar. „Þær rétt stoppa til að drekka vatn, varla hægt að kalla það stopp,“ segir Sólveig.

Söfnunarhlaupinu lýkur 15. júlí þegar þær hlaupa inn í hálendismiðstöðina Hrauneyjar. Verða þær þar um fjögurleytið.

Nánari upplýsingar má nálgast hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×