Handbolti

Guðjón Valur: Ekkert sjálfsagt að ég haldi áfram

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðjón Valur kvaddi Paris Saint-Germain sem franskur meistari.
Guðjón Valur kvaddi Paris Saint-Germain sem franskur meistari. vísir/epa

Landsliðsfyrirliðinn Guðjón Valur Sigurðsson segist ekki vera búinn að gera það upp við sig hvort hann haldi áfram í handbolta. Hann var í viðtali í Brennslunni á FM957 í morgun.

Samningur Guðjóns Vals, sem verður 41 árs í ágúst, við Paris Saint-Germain rennur út í sumar. Hann hefur dvalið hér á landi undanfarnar vikur, eða síðan keppni í frönsku úrvalsdeildinni var frestað vegna kórónuveirufaraldursins. 

Tímabilið í Frakklandi var svo flautað af í síðustu viku og PSG krýndir meistarar. Guðjón Valur hefur því leikið sinn síðasta leik fyrir félagið.

„Ég hugsa ekki um það nema svona sextán klukkutíma á dag,“ sagði Guðjón Valur aðspurður hvort hann ætlaði að halda áfram að spila.

Hann er á báðum áttum hvort hann eigi að leggja skóna á hilluna og setja punktinn aftan við langan og glæsilegan feril.

„Það er ýmislegt sem kemur til greina og ekkert sjálfsagt að ég haldi áfram ef ég á að vera hreinskilinn. En það kemur vel til greina,“ sagði Guðjón Valur. 

„Mér líður ennþá ágætlega í skrokknum og sérstaklega eftir rúman mánuð í hvíld líður mér eins og ég geti gert þetta í 3-4 ár í viðbót. En hvort það sé skynsamlegt og ég geti gert það á sama stigi og ég hef gert hingað til er spurning sem ég get ekki svarað.“

Guðjón Valur hefur leikið sem atvinnumaður síðan 2001, í Þýskalandi, Danmörku, á Spáni og nú síðast í Frakklandi. Hann hefur leikið með íslenska landsliðinu síðan 1999 og verið fyrirliði þess síðan 2012.

Hlusta má á viðtalið við Guðjón Val hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×