Innlent

Í mál eftir að hafa ekki fengið að slíta samningi sínum við Búmenn

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Hjördís Birna Hjartardóttir lögmaður sér um að reka málið fyrir hönd íbúans fyrrverandi.
Hjördís Birna Hjartardóttir lögmaður sér um að reka málið fyrir hönd íbúans fyrrverandi. Vísir/Pjetur
Annað mál af þremur þar sem fyrrverandi íbúi hjá Búmönnum fer fram á endurgreiðslu vegna ofgreiddra búsetugjalda er tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Málið snýst um ofgreiðslur sem komu til vegna þess að Búmenn neituðu íbúa að slíta samningi sínum við félagið. Fyrir liggur að það var ekki heimilt. Félagið segist ekki hafa burði til að greiða fólki til baka búseturéttinn.



Banna fólki að segja upp samningi

Samkvæmt upphaflegum samþykktum félagsins áttu félagsmenn sem keyptu búseturétt kost á að segja upp búseturéttarsamningi með sex mánaða fyrirvara og og fá greitt til baka það gjald sem þeir lögðu í búseturéttinn, svokallað tryggingargjald. Þetta ákvæði í samþykktunum var afnumið árið 2007. Fréttablaðið fjallaði um málið í mars á síðasta ári.



Félaginu hefur hins vegar mátt vera það ljóst að óheimilt sé að meina félagsmönnum að segja upp samningi allt frá því árið 2013. Það ár sendi félags- og tryggingamálaráðherra forsvarsmönnum húsnæðissamvinnufélagsins bréf þar sem þetta kom fram. Þrátt fyrir það hefur félagsmönnum gengið illa að fá sig lausa.



Hjördís Birna Hjartardóttir lögmaður segir að konan fari einnig fram á að fá greidda út tryggingu sem hún lagði fram þegar hún gerði samning um aðild að Búmönnum. Upphæðin nemur 3-4 milljónum króna.



Hvað er Búmenn?

Húsnæðissamvinnufélagið Búmenn var stofnað 1998 en það á í dag 540 íbúðir í 13 sveitarfélögum, samkvæmt yfirliti á heimasíðu félagsins. Félagið er aðeins fyrir fyrir fimmtíu ára og eldri og er í eigu félagsmanna. Flestar íbúðirnar eru í Reykjavík, Akranesi, Garði í Gerðahreppi, Akureyri, Reykjanesbæ og Hveragerði. Félagið á einnig íbúðir í Grindavík, Höfn í Hornafirði, Kirkjubæjarklaustri, Kópavogi, Sandgerði og Vogum.



Segja má að félagið standi á brauðfótum en allir sjóðir þess eru tómir og það getur ekki staðið við skuldbindingar sínar. RÚV greindi frá því í lok janúarmánaðar að Íbúðalánasjóður hafi samþykkt að afskrifa hálfan milljarð vegna 63 íbúða, færa þær í leigufélag í eigu Búmanna og frysta afborganir í þrjú ár.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×