Innlent

Samningur Páls ótímabundinn: Páll Magnússon yfirheyrður af stjórn RÚV

Jakob Bjarnar skrifar
Ekki er ólíklegt að saumað verði að Páli á aukastjórnarfundi sem hefst eftir klukkustund.
Ekki er ólíklegt að saumað verði að Páli á aukastjórnarfundi sem hefst eftir klukkustund.
Stjórn RÚV ohf hefur verið boðuð til aukafundar í dag klukkan fjögur. Þar verður farið yfir framkvæmd hagræðingaaðgerða.

Ingvi Hrafn Óskarsson, formaður stjórnar RÚV ohf hefur boðað til stjórnarfundar sem hefst nú klukkan fjögur í dag. „Tvö mál á dagskrá. Farið verður yfir framkvæmd hagræðingaraðgerða annars vegar og hins vegar erum við að fá kynningu á nýja dagskrárramma Rásar 1,“ segir Ingvi Hrafn í samtali við Vísi.

Í fyrri liðnum verður farið yfir hagræðingaraðgerðirnar og er þar um samantekt Páls Magnússonar útvarpsstjóra að ræða sem situr þá fyrir svörum en vænta má að stjórnin hafi sitthvað við það að athuga hvernig til hefur tekist. Þó stjórnin hafi fallist á aðgerðirnar hefur framkvæmd þeirra sætt mikilli gagnrýni, vægast sagt. Á sama tíma verður Illuga Gunnarssyni afhentar rúmlega tíu þúsund undirskriftir þar sem niðurskurðinum er mótmælt, undirskriftasöfnun þar sem farið er fram á að Páll fari frá sem útvarpsstjóri, Vísir hefur flutt fréttir af alvarlegum eineltismálum innan stofnunarinnar og nýjustu fréttir eru svo þær að yfirmaður íþróttadeildar, Kristín H. Hálfdánardóttir, sem einmitt hefur verið nefnd sem gerandi í áðurnefndum eineltismálum, búi sér að kostnaðarlausu í húsnæði Ríkisútvarpsins. Það hefur blásið um stofnunina og kannski af nægu að taka fyrir stjórnina?

„Það hafa margar fréttir verið sagðar af RÚV um þessar mundir en þetta er það sem er á dagskrá stjórnar í dag,“ segir Ingvi Hrafn. En, Vísir hefur heimildir fyrir því að margar spurningar brenni á stjórnarmönnum.

Spurður hvort eitthvað samningur Páls við stofnunina hafi eitthvað komið til tals innan stjórnar, segir Ingvi Hrafn svo ekki vera og að rangt sé að samningurinn sé að renna út. „Páll er ótímabundinn samning. Nýju lögin fólu þá breytingu í sér að útvarpsstjóri á að vera með tímabundna ráðningu. Það eru líka ákvæði um það í lögunum að það eigi að samræma starfskjör útvarpsstóra þessum breytingum. Þetta mál er til skoðunar og er óafgreitt hjá stjórn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×