Innlent

Ósáttir við að þurfa að keyra hundrað kílómetra til að kjósa forseta

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Íbúar í Lóni í Austur-Skaftafellssýslu mótmæla því harðlega hvernig staðið var að kjörfundi nýafstaðinna forsetakosninga á svæðinu. Þetta kemur fram í bréfi sem íbúar undirrituðu og sendu bæjarráði sveitarfélagsins Hornafjarðar.

„Andstætt því sem ætíð hefur verið var ekki opinn kjörstaður í Lóni, en íbúum ætlað að kjósa í Nesjakjördeild, Mánagarði,“ segir í bréfinu en mesta vegalengd íbúa í Lóni til Nesjakjördeildar og heim aftur er sögð yfir hundrað kílómetrar.

Þá segir einnig að undanfarna áratugi hafi kjördeildir verið opnar í öllum sveitum sýslunnar. „Með því fyrirkomulagi sem nú var á haft teljum við íbúum í Lóni vera gróflega mismunað, þegar Lón er ein sveita án sérstakrar kjördeildar,“ segir í bréfinu. Sú krafa var þá gerð að kjördeild verði opin í Lóni hér eftir. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 19. júlí




Fleiri fréttir

Sjá meira


×