Sport

Henry Birgir um Tom Brady: Þetta verður versta ákvörðun ferilsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tom Brady skiptir yfir í rauðan búning á næstu leiktíð.
Tom Brady skiptir yfir í rauðan búning á næstu leiktíð. vísir/getty

Henry Birgir Gunnarsson, sérfræðingur Stöðvar 2 Sports í NFL-deildinni, bauð upp á svokallað „hot take“ á vistaskiptum besta leikstjórnanda allra tíma.

Tom Brady, sem verður 43 ára gamall í haust og hefur spilað í tuttugu ár með New England Patriots, tók þá ákvörðun að hætta hjá félaginu en ekki að hætta að spila. Brady er sagður ætla að skrifa undir samning við Tampa Bay Buccaneers.

Margir sérfræðingar NFL-deildarinnar segja að þetta sé skynsamleg ákvörðun fyrir Tom Brady og fyrir Tampa Bay Buccaneers sem nú verði að liði sem geti farið alla leið.

Það eru vissulega nóg af sóknarvopnum hjá Buccaneers sem Brady getur nýtt sér en Henry Birgir var ekki eins bjartsýnn þegar hann ræddi þessa ákvörðun Tom Brady í Sportinu í dag á Stöð 2 Sport.

„Þetta eru einhverjar stærstu fréttir ársins og rúmlega það í Bandaríkjunum fyrir utan þessar veirufréttir. Þetta er það sem ég myndi kalla sjálfsmorðsverkefni hjá Brady ef hann ætlar sér að fara í Tampa sem virðist vera raunin,“ sagði Henry Birgir Gunnarsson.

„Þarna er útherjadúóið stórkostlega í Tampa Bay sem eru Chris Godwin og Mike Evans en þeir hafa aðallega verið að kasta á þessa tvo. Ég held að vandamálið með það sé að Brady drífi ekki á þá því ég held að hann kasti ekki þetta langt,“ sagði Henry Birgir og hann var til í spá:

„Mitt „hot take“ á þetta er að þetta er hræðileg ákvörðun hjá Brady, þetta er versta ákvörðun ferilsins hjá Brady og þegar vel er liðið á næsta tímabil þá mun hann óska þess að hafa frekar lagt skóna á hilluna,“ sagði Henry Birgir en það má sjá Kjartan Atla og Henry Birgi ræða ákvörðun Tom Brady hér fyrir neðan.

Klippa: Henry Birgir um Tom Brady


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.