Innlent

Meiri sveigjanleiki í fæðingarorlofi samkvæmt drögum að nefndaráliti

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Fæðingarorlof verður lengt í tólf mánuði eftir áramót.
Fæðingarorlof verður lengt í tólf mánuði eftir áramót. vísir/Vilhelm

Framseljanlegum mánuðum í lengdu fæðingarorlofi verður fjölgað úr einum í tvo samkvæmt drögum að nefndaráliti velferðarnefndar Alþingis. Enn er þó ágreiningur um málið innan nefndarinnar.

Fæðingarorlof verður lengt úr tíu mánuðum í tólf eftir áramót samkvæmt frumvarpi til laga um fæðingar- og foreldraorlof sem hefur verið til umfjöllunar í velferðarnefnd. Í frumvarpinu er lagt upp með að hvort foreldri eigi rétt til allt að sex mánaða orlofs. Heimilt sé þó að framselja einn mánuð, svo að annað foreldri geti tekið sjö mánuða orlof.

Mikill ágreiningur hefur verið um málið og í fjölda umsagna í samráðsgátt og til nefndarinnar hefur verið kallað eftir meiri sveigjanleika og að framseljanlegum mánuðum verði fjölgað. Aðrir hafa þó talið fasta skiptingu í lögum tryggja þátttöku beggja foreldra í uppeldi og jafna stöðu foreldra á vinnumarkaði.

Samkvæmt drögum að nefndaráliti sem hefur verið kynnt í nefndinni verður framseljanlegum mánuðum fjölgað úr einum í tvo. Annað foreldri geti þar með tekið átta mánaða orlof. Um málamiðlunartillögu er að ræða og samkvæmt heimildum fréttastofu er enn ágreiningur um málið.

Til stendur þó að afgreiða málið fyrir þinghlé. Tíminn er naumur þar sem gert er ráð fyrir að þingið fari í jólafrí í lok vikunnar.

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks og nefndarmaður í velferðarnefnd Alþingis.vísir/VIlhelm

Aðspurður um álitsdrögin segir Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og nefndarmaður í velferðarnefnd, jákvætt ef meiri sveigjanleiki yrði tryggður.

„Svigrúmið er bara svo mikilvægt til að tryggja það að hagur barnsins sé í fyrirrúmi þar sem aðstæður í hverri fjölskuldu eru svo mismunandi,“ segir Vilhjálmur.

Hann segir mjög skiptar skoðanir  um málið, bæði á milli flokka og innan þeirra.

„Hvort það eigi að horfa á þetta út frá því að vera vinnumarkaðsúrræði og stórt jafnréttistæki, sem fæðingarorlofið náttúrulega er. Eða hvort það eigi að horfa á þetta út frá hagsmunum barnsins. En ég held að bæði þessi sjónarmið nái fram að ganga með því að hafa svigrúmið til staðar fyrir fjölskylduna. Þannig að skiptingin sé jöfn en með svigrúmi til framsals,“ segir Vilhjálmur.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.