Innlent

Geðheilbrigðismálin ekki jaðarsett verkefni heilbrigðiskerfisins

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Svandís Svavarsdóttir
Svandís Svavarsdóttir Vísir/Sigurjón

Heilbrigðisráðherra mun taka mið af þeim ábendingum sem komu fram á geðheilbrigðisþingi í morgun frá sérfræðingum jafnt sem notendum geðheilbrigðisþjónustu við smíði nýrrar geðheilbrigðisstefnu til 2030. Hún segir brýnasta ákallið á sviði geðheilbrigðismála vera betri samþættingu ólíkra kerfa samfélagsins. Geðheilbrigðismálin séu ekki jaðarsett verkefni heilbrigðiskerfisins.

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, stóð fyrir geðheilbrigðisþingi í morgun sem var sýnt í beinu streymi. Fyrirkomulag þingsins var með opnu og gagnvirku sniði því áhorfendur heima í stofu gátu gert athugasemdir og spurt spurninga á eftir hverju erindi. Svandís segir að hún leggi mikið upp úr því að við borðið séu ekki bara sérfræðingar og stjórnendur heldur líka sjálft fólkið sem nýtir sér geðheilbrigðisþjónustuna. Svandís var spurð hvort afrakstur stefnumótunar þingsins yrði lagður til grundvallar nýrri geðheilbrigðisstefnu.

„Nú er það þannig að stefnan sem er í gildi og aðgerðaráætlunin rennur sitt skeið á þessu ári, 2020, þannig að nú erum við að leggja grunn að áherslum og verkefnum til 2030.

Þegar við verðum búin að fá efniviðinn úr deginum í dag þá setjum við upp aðgerðir og áætlanir sem við munum síðan birta á vef stjórnarráðsins og í samráðsgáttinni þannig að þá getur fólk gert athugasemdir. Það er virkilegur vilji til þess að þessi leið til stefnumótunar, þessi opna leið, skili sér í raunverulegum aðgerðum.“

Svandís segir aðspurð að brýnasta ákallið í geðheilbrigðismálum sé samþætting mismunandi kerfa samfélagsins og að notendur fái sæti við borðið þar sem ákvarðanir eru teknar.

„Það má eiginlega segja að geðheilbrigðismálin hafi verið jaðarmál mjög lengi og á undanförnum árum hefur það verið mitt markmið að koma þeim meira inn í kastljósið, að við séum meira að hugsa um þau alltaf, vegna þess að líkamleg og geðræn heilsa helst algjörlega í hendur. Ef okkur líður illa líkamlega eða erum veik þá kemur það niður á geðheilbrigði og á sama hátt ef við erum í alvarlegum geðheilbrigðisvanda þá kemur það líka niður á okkar líkamlegu heilsu þannig að það er ekki hægt að taka þetta í sundur.

Í því felst mesta ákallið; að hafa þjónustuna samþættari og að þjónustukerfin okkar öll séu að tala saman; heilbrigðiskerfið og skólakerfið, félagsþjónustan og að notendur séu við borðið.“

Barst talið þá að gjaldfrjálsri sálfræðiþjónustu en í vor samþykkti Alþingi samhljóða frumvarp um að fella sálfræðiþjónustu undir almannatryggingakerfið.

Hvenær getur fólk átt von á að þetta muni raungerast og að fjárhagsvandræði standi ekki í vegi fyrir nauðsynlegri sálfræðiþjónustu?

„Í fyrsta lagi viljum við tryggja að það sé greiður aðgangur að sálfræðingum hjá heilsugæslunni og að við séum að huga að geðrækt í öllu kerfinu; líka í skólakerfinu okkar, á vinnustöðum og í samfélaginu öllu þannig að það sé ekki bara miðað við að maður fái viðtal hjá sérfræðingi.

Hins vegar höfum við núna tekið til hliðar hundrað milljónir til að fara í samninga við sjálfstætt starfandi sálfræðinga til að tryggja að viðtöl hjá þeim falli undir greiðsluþátttökukerfið og þar með sé sú þjónusta aðgengilegri þannig að við erum þá í raun og veru að bæta við aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu á fyrsta stigi í heilsugæslunni, á öðru stigi í geðheilsuteymunum og hjá sjálfstætt starfandi og síðan auðvitað á þriðja stiginu sem er þjónusta á Sjúkrahúsinu á Akureyri og á Landspítalanum.“

Svandís segir að sérstaklega hafi verið horft til erfiðleika vegna faraldursins sem nú geisar. Ákveðið hefði verið að setja 540 milljónir í heilsugæsluna um land allt til að hún sé betur mönnuð og til að koma til móts við álagið sem stafar af faraldrinum. Faraldurinn sé ekki bara glíma hvers og eins heldur samfélagsins alls sem sé undir mjög sérstöku og óvenjulegu álagi.

„Við erum líka að leggja til þessa upphæð áfram á árinu 2021 þannig að við viljum þétta öryggisnetið okkar til þess að það grípi sem flesta vegna þess að þetta er álag og þetta reynir á okkur öll, á þolgæði og úthald okkar allra. Flest okkar komast í gegnum það vel en við þurfum að huga vel að okkur og passa upp á okkur en ekki síst að horfa í kringum okkur og passa upp á hvert annað. Nú þegar við erum að fara inn í jólamánuðinn þá þurfum við að hugsa til þeirra sem ekki búa við þétt fjölskyldunet og þá sem eru einir.“


Tengdar fréttir

Bein út­sending: Opið þing um fram­tíðar­sýn í geð­heil­brigðis­málum

Geðheilbrigðisþing sem Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur boðað til hefst klukkan 9 og stendur til klukkan 11:15. Ráðstefnan hefst með opnunarávarpi ráðherra en svo taka við stutt erindi leik- og fagmanna um efnið sem lýkur svo með pallborðsumræðum. Hægt er að fylgjast með þinginu hér á Vísi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×