Innlent

Sakborningar fá nafnleynd í kjölfar ónæðis frá lögmönnum

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Flest mál koma til kasta Héraðsdóms Reykjavíkur og Héraðsdóms Reykjaness. Einstaklingar í sakamálum eru nú merktir „X“ í dagskránni en hingað til hafa nöfn fólks í opnum þinghöldum verið birt á vef dómstólanna. 
Flest mál koma til kasta Héraðsdóms Reykjavíkur og Héraðsdóms Reykjaness. Einstaklingar í sakamálum eru nú merktir „X“ í dagskránni en hingað til hafa nöfn fólks í opnum þinghöldum verið birt á vef dómstólanna.  Vísir/Vilhelm

Tveir stærstu dómstólar landsins eru hættir að birta nöfn sakborninga opinberlega á dagskrá sinni vegna ónæðis frá lögmönnum sem hafa nýtt sér dagskrána til þess að sækja sér skjólstæðinga. Um er að ræða Héraðsdóm Reykjavíkur og Héraðsdóm Reykjaness.

„Við höfum fengið fregnir af því, svona óbeint, að það hafi verið ákveðinn ágangur lögmanna og það hafi þótt óþægilegt,“ segir Berglind Svavarsdóttir, formaður Lögmannafélags Íslands.

Hingað til hafa nöfn sakborninga í opnum þinghöldum ávallt verið birt á vef dómstólanna og á dagskrá sem hengd er upp í anddyri þeirra. Héraðsdómur Reykjaness gerði þessar breytingar hjá sér í upphafi árs eftir kvartanir á hendur einstaka lögmönnum og nú nýverið gerði Héraðsdómur Reykjavíkur slíkt hið sama.

„Ef rétt er, þá nei, auðvitað er það ekki eðlilegt ef viðkomandi er með verjanda og það liggur fyrir, þá er það bara ákvæði í siðareglum að lögmenn virða þann rétt. Þeir eiga ekki að tala beint við skjólstæðing án aðkomu viðkomandi lögmanns,“ segir Berglind.

Fréttastofa hefur rætt við lögmenn sem segjast þreyttir á þessum vinnubrögðum, en telja það hins vegar ekki heillaskref að draga úr upplýsingagjöf.

„Það er hægt að bregðast við ef sá sem telur á sig hallað af hálfu lögmanns. Þá getur viðkomandi ávallt sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna sem tekur á því og mun fjalla um það,“ segir Berglind, aðspurð um hvort Lögmannafélagið taki þessi mál til skoðunar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.