Sport

Sér eftir því að hafa leyft Anderson Silva að berjast

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Anderson Silva niðurlútur eftir síðasta bardaga sinn á ferlinum, allavega í UFC.
Anderson Silva niðurlútur eftir síðasta bardaga sinn á ferlinum, allavega í UFC. getty/Jeff Bottari

Dana White, forseti UFC, segist hafa gert mistök með því að leyfa Anderson Silva að berjast við Uriah Hall um helgina. Hall sigraði Silva með tæknilegu rothöggi í fjórðu lotu.

Fyrir bardagann hafði hinn 45 ára Silva sagt að hann myndi hætta eftir hann. Brasilíumaðurinn dró hins vegar í land eftir bardagann og sagðist vilja halda áfram að berjast, þótt það væri ekki í UFC. Jafnvel þótt hann hefði áhuga á því virðast engar líkur á því að White hleypi honum aftur í búrið.

„Ég gerði stór mistök. Ég hefði ekki átt að leyfa honum að berjast í kvöld en af virðingu við hann fór ég gegn eigin sannfæringu. Ég vissi að ég hefði rétt fyrir mér og það sannaðist í kvöld. Anderson Silva ætti aldrei að berjast aftur,“ sagði White eftir bardagann aðfaranótt sunnudags.

Silva er talinn einn af bestu bardagamönnum allra tíma og á m.a. metið yfir flesta sigra í röð í UFC, eða sextán. Síðustu ár hefur hann ekki verið skugginn af sjálfum sér og aðeins unnið einn af síðustu níu bardögum sínum.

„Mér líður ekki vel með að hafa leyft Anderson Silva að berjast í síðasta sinn. Við höfum komið vel fram við hann og ekki sýnt honum neitt annað en virðingu og ef þið vissuð hvað hann fengi fyrir hvern bardaga mynduð þið skíta á ykkur,“ sagði White við blaðamenn eftir bardagann í Las Vegas.

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×