Körfubolti

Haukur frá­bær í tapi og spennu­tryllir hjá Tryggva

Anton Ingi Leifsson skrifar
Haukur Helgi átti virkilega góðan leik í kvöld.
Haukur Helgi átti virkilega góðan leik í kvöld. Twitter-síða Andorra

Haukur Helgi Pálsson átti virkilega góðan leik fyrir Morabanc Andorra er liðið tapaði fyrir Lokomotiv Kuban Krasnodar á útivelli í Evrópudeildinni í körfubolta, 76-61.

Rússarnir voru sterkari nær allan leikinn. Þeir tóku völdin í fyrsta leikhlutanum og voru 37-27 yfir í hálfleik. Að endingu varð munurinn svo fimmtán stig.

Haukur Helgi var næst stigahæsti leikmaður Andorra í leiknum. Hann skoraði tólf stig, tók fjögur fráköst og gaf tvær stoðsendingar en Andorra hefur einungis unnið einn af fyrstu fjórum leikjunum í riðlinum.

Í Meistaradeildinni var Tryggvi Snær Hlinason í baráttunni með Zaragoza er liðið vann eins stigs sigur á pólska liðinu Pszczólka Start Lublin, 86-85, á útivelli, eftir að hafa verið þremur stigum undir er ellefu sekúndur voru eftir.

Tryggvi komst ekki á blað en hann tók fimm fráköst og gaf eina stoðsendingu. Þetta var fyrsti leikur beggja liða í Meistaradeildinni en í riðlinum eru einnig Nizhny Novgorod og Szombathely.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×