Sport

Fyrsta grein heimsleikanna opinberuð og hún er sannkölluð mjólkursýrugrein

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katrín Tanja Davíðsdóttir stóð efst á palli eftir heimsleikana árið 2016 og þá var Sara Sigmundsdóttir í þriðja sætið. Nú er Katrín Tanja hins vegar bara eini Íslendingurinn á svæðinu.
Katrín Tanja Davíðsdóttir stóð efst á palli eftir heimsleikana árið 2016 og þá var Sara Sigmundsdóttir í þriðja sætið. Nú er Katrín Tanja hins vegar bara eini Íslendingurinn á svæðinu. Instagram/@filthy150

Katrín Tanja Davíðsdóttir og hinir níu keppendurnir í ofurúrslitum heimsleikanna eru að búa sig undir ferðalag til Norður Karólínu þar sem heimsleikarnir hefjast á föstudaginn eftir viku en á sama tíma fá þau að vita meira um hvað bíður þeirra.

CrossFit samtökin eru búin að gefa út fyrstu keppnisgreinina á lokaúrslitum heimsleikanna en það verður þó ekki fyrsta keppnisgreinin á heimsleikunum. Yfirmenn samtakanna ákváðu að kynna grein númer tvö fyrst.

Önnur grein leikanna verður 320 metra kornpoka brekkuhlaup. Karlarnir munu bera 22,7 kílóa kornpoka á öxlunum en poki kvenna verður tæp fjórtán kíló.

Þetta er tímagrein en keppendur fá heilar átta mínútur til að klára sem eru nú frekar langur tími. Þessi brekka gæti því verið svolítið brött.

Þetta er klassísk keppnisgrein því svona grein hefur verið áður á heimsleikunum eða bæði á 2009 og 2016 leikunum. Nú hefur brautin verið lengd til að gera hana enn erfiðari en þegar hún fór síðast fram þá þurfti að hjálpa nokkrum keppendum niður brekkuna aftur.

Hér fyrir neðan má sjá yfirdómarann Adrian Bozman tala um þessa grein og um leið má sjá myndband af CrossFit keppenda reyna sig við hana.

„Að mínu meti er þetta eitt hreinasta prófið á virkni keppenda. Getur þú komið þér og þessum hlut yfir marklínuna. Það er ekki hægt að úthugsa þetta eða skipuleggja sig. Þú verður bara að láta vaða. Þú getur ekkert falið þig í þessari grein, annað hvort getur þú þetta eða ekki,“ sagði Adrian Bozman.

Bozman fór líka aðeins yfir það hvað brautin er talsvert lengri í ár en hún hefur verið í þessari grein áður.

„Það hafa margir talað um að þetta hafi verið þeirra versta grein og ekki hvernig þeim leið eftir hana heldur frekar hvernig þeim leið á meðan henni stóð. Ben Smith heldur því fram að þetta sér erfiðasta greinin sem hann hefur tekið þátt í og hann hefur keppt tíu sinnum á leikunum. Það segir mikið,“ sagði Bozman.

„Andlega og líkamlega þá er þetta geggjað próf,“ sagði Adrian Bozman og þetta er líka aðeins önnur greinin þannig að keppendur mega ekki klára sig í henni. CrossFit samtökin hafa gefið það út að þetta eigi eftir að verða erfiðustu heimsleikar allra tíma og það má sjá á grein tvö að þeir munu örugglega ná því markmiði sínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×